Mogginn / Leiðari Moggans fjallar um mótmælin í Bandaríkjunum. Að vonum eiga demókratar ekki upp á pallborðið í Hádegismóum: „Forystumenn demókrata hafa því lyppast niður fyrir ógninni og krjúpa nú opinberlega á annað kné að kröfu samtakanna.“
Mogginn segir: „En ein skrítnasta birtingarmyndin er að risafyrirtæki á borð við Amazon og önnur lítið minni hafa tekið þann kost að dæla óstjórnlegum fjárhæðum til þessara samtaka, sem þó hafa sýnt að kunna sér ekki hóf. Samkvæmt fréttum hefur Black Lives Matter fengið sem svarar til þriggja milljarða íslenskra króna frá Amazon og önnur risafyrirtæki hafa ekki heldur skorið fjárhæðir sínar við trog. Það er sjálfsagt tilviljun að skemmdarverkum hefur ekki verið beitt gegn þessum fyrirtækjum.“
Samkvæmt Mogganum eiga fleiri en íslenskir eigendur smærri fyrirtækja í vanda. Svo er einnig í Bandaríkjunum, þó ástæðan sé ekki sú sama. Yfir í Hádegismóa:
„Eigendur miðlungsstórra og smárra fyrirtækja, sem varið hafa lífi sínu í að byggja þau upp, hafa sumir nú tapað því eða heilsu sinni við að reyna að verja þau, þegar þúsundir slíkra hafa verið rændar og ruplaðar, brotnar og skemmdar og ótrúlega oft brenndar til grunna. Um leið og „málfrelsi“ þeirra sem farið hafa þannig út fyrir öll mörk þess er varið er málfrelsi annarra í sinni einföldustu mynd snúið niður þegar bent er á hvar mannslíf bandarískra blökkumanna eru í langmestri hættu, svo að engan samanburð stenst við neitt.“
Moggi dagsins.