Stórfengleg svik stjórnmálafólks
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, skrifar merka grein sem er að finna í Fréttablaðinu í dag. Hún fjallar þar um margbrotin fyrirheit stjórnmálafólks sem hikar hvergi við að ganga á bak orða sinna og skilja allt of margt fólk eftir í sára fátækt. Hér á eftir fer grein Þuríðar Hörpu óstytt:
„Árið 2006 mynduðu fimm stjórnmálaflokkar pólitíska samstöðu með hagsmunasamtökum fatlaðs og langveiks fólks og eldri borgurum, undir nafninu „þjóðarsátt um virkara velferðarríki“. Saman mótuðu þessir aðilar nútímalegar hugmyndir að samfélagi þar sem allir gætu tekið þátt. Vinna átti að einfaldara almannatryggingakerfi, hærri lífeyri og skattleysismörkum, minnkun skerðinga vegna atvinnutekna, aukinni atvinnuþátttöku, einstaklingsmiðaðri búsetu, aukinni þátttöku í menntun og endurhæfingu og að heildstæðari heilbrigðisþjónustu. Fjórtán árum síðar hefur lítið breyst. Nú eru þrír þessara flokka við stjórnvölinn.
Á þessum fjórtán árum hafa kjör fatlaðs og langveiks fólks versnað stórlega. Þeim sem leita á náðir hjálparsamtaka eftir mat og öðrum nauðsynjum, hefur fjölgað mikið, en nærri 70% þeirra er fatlað fólk. Öryrkjum er gert að lifa af upphæð langt undir atvinnuleysisbótum. Sumir neyðast til að búa í bílum og í tjöldum allt árið um kring. Sára fátækt er veruleiki allt of margra og um 6.000 íslensk börn búa við mikla fátækt.
Í dag ganga öryrkjar undir rauðum fána og gera kröfu um breytingar og réttlátara þjóðfélag, enda krafan um hækkun örorkulífeyris og að virðing sé borin fyrir mannlegri reisn fatlaðs og langveiks fólks áþekk kröfunni um hækkun launa og virðingu fyrir vinnuframlagi fólks
Örorkulífeyrisþegar krefjast þess að njóta virðingar sem endurspeglast í því að lífeyrir dugi til mannsæmandi lífs, að dregið sé verulega úr skerðingum og að aðgengi að samfélaginu sé í raun. Ég skora á þessa þrjá flokka að standa nú við yfirlýsingar sínar, að bæta úr misgjörð síðasta áratugar. Í því ástandi sem nú herjar á heiminn er mikilvægt að skilja enga eftir! Betra er seint en aldrei og nú verður að efna loforðin, en ekki svíkja.
Stjórnvöld, hvar eru efndirnar?“