Stjórnmál

Stóraukin kaupmáttur ellilífeyrisþega

By Miðjan

December 10, 2020

„Ef við myndum taka okkur tíma í að skoða þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna þess hóps sem hér er sérstaklega beint sjónum að, þ.e. ellilífeyrisþegum, myndum við taka eftir því að kaupmáttur ráðstöfunartekna allra tekjutíunda ellilífeyrisþega hefur stóraukist á undanförnum árum,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag.

Inga Sæland spurði: „Megum við eiga von á því að í næsta fjárauka verði hugsanlega tekið utan um þessa fáu eldri borgara sem eru hér í sárri fátækt? Eru með berstrípaðar almannatryggingabætur. Eru að fá ríflega 240.000 kr. útborgað. Megum við eiga von á því að hæstvirt ríkisstjórn og fjármálaráðherra taki þetta fólk í fangið líka og mismuni þeim ekki fyrir jólin?“

„Ég spyr mig aðeins að því hvað átt sé við þegar talað er um mismunun, mismunun fyrir jólin. Við erum hér með ýmiss konar stuðningskerfi. Eitt kerfið sem við þekkjum ágætlega og ræðum iðulega í þingsal er það sem sniðið er að þörfum öryrkja. Annað kerfi er það sem sniðið er að þörfum ellilífeyrisþega. Þau ganga ekki alveg eftir sömu lögmálum, þessi tvö kerfi, enda eru þau fyrir mjög ólíka hópa,“ svaraði Bjarni.

„Samverkandi þættir þessa hafa leitt til þess að kjörin fyrir allar tekjutíundir þessa hóps, þ.e. ellilífeyrisþega, hafa verið að batna ár frá ári og gera það enn á næsta ári,“ bætti Bjarni við.