Björn Leví Gunnarsson Pírati er svo elskulegur að segja okkur stóra smásögu frá Alþingi. Það gerir hann í Moggagrein í dag. Sagan er svona:
Mig langar til þess að segja ykkur sögu innan frá Alþingi. Leikendur í þeirri sögu meina allir vel og þegar allt kemur til alls haga þeir sér þannig. Það er hins vegar ekki endilega samasemmerki á milli góðs ásetnings og afleiðinga. Árið 2016 voru á Alþingi sett lög sem fólu í sér endurskoðun á ellilífeyri og kjarabætur fyrir ellilífeyrisþega. Stuttu eftir gildistöku laganna kom í ljós að mistök höfðu verið gerð við lagasetninguna sem ollu því að lífeyrir aldraðra varð ekki skertur vegna ákveðinna tekna. Þannig voru gerð mistök og þau varð að leiðrétta Það sem vakti hins vegar athygli var að leiðréttingin átti að gilda afturvirkt, þar sem lögin höfðu þegar tekið gildi. Afturvirk lagasetning er í besta falli varhugaverð og ætti aðeins að beita þegar neyð krefur, til hagsbóta fyrir almenning. Það má ekki taka réttindi af fólki afturvirkt en á móti má veita fólki réttindi afturvirkt. Það er ekki hægt að láta þig fá afturvirka launalækkun, en það er hægt að láta þig fá afturvirka launahækkun.
Það var ekki skýrt hvaða áhrif þessi afturvirkni hafði og hér urðu hlutirnir alvarlegir. Þingmenn sem fjölluðu um málið voru beðnir um að halda trúnað um að þessi mistök kostuðu ríkið tvo og hálfan milljarð á mánuði. Markmiðið með því að hafa þessa breytingu afturvirka var að tryggja að ellilífeyrisþegar ættu ekki réttmætar væntingar til að fá greiðslur samkvæmt hinum gölluðu lögum. Misheppnuðum lögum, en lögum enga að síður. Píratar taka trúnað alvarlega en þetta voru upplýsingar sem urðu að koma fram, annað væri einfaldlega ólýðræðislegt. Til þess að draga þessar upplýsingar fram fórum við fram á kostnaðarmat, sem verður nauðsynlega að fylgja þegar svo kostnaðarsöm mál eru samþykkt. Þegar kostnaðarmatið kom fram lágu upplýsingarnar fyrir, án þess að um brot á trúnaði hafi verið að ræða.
Það þarf virkt aðhald og eftirlit frá fólki sem stendur vörð um réttindi fólks og lögin sem tryggja réttindi þeirra. Sama hvað það kostar því kostnaðurinn við að brjóta á réttindum fólks er svo miklu meiri.