Helga Vala Helgadóttir:
Á slíkum stundum reiðum við okkur á fjölmiðla og þá skiptir miklu máli að við, neytendur frétta, greinum áróður stjórnvalda eða annarra ráðandi afla frá raunverulegum fréttum.
Við lifum á tímum offramleiðslu á afþreyingu. Flæðið er endalaust og móttaka okkar sem notumst við snjalltæki og tölvur getur verið linnulaus allan vökutímann. En það er ekki allt gagnlegt. Eða kannski ætti ég frekar að segja að við skulum varast að taka öllum upplýsingum sem berast sem sannleika.
Timothy Snyder, sagnfræðiprófessor við Yale-háskóla, skrifaði magnaða bók árið 2017 sem ber nafnið On Tyranny eða Um harðstjórn í íslenskri þýðingu Guðmundar Andra Thorssonar. Ég hvet alla til að glugga í hana reglulega. Um er að ræða tuttugu lærdóma sem draga má af tuttugustu öldinni og er lýst af höfundi sem „sjálfshjálparbók fyrir lýðræðið“. Þar fer Snyder yfir það hvernig þjóðfélög geta molnað, lýðræði brugðist, siðareglur brotnað og venjulegt fólk geti framið skelfileg grimmdarverk. Margsinnis hefur mér þótt tilefni til að leita ráða hjá höfundi á undanförnum árum, ýmist vegna heimsfrétta eða frétta héðan frá Íslandi, þegar „bullstuðullinn“ er orðinn hærri en góðu hófi gegnir. Á slíkum stundum reiðum við okkur á fjölmiðla og þá skiptir miklu máli að við, neytendur frétta, greinum áróður stjórnvalda eða annarra ráðandi afla frá raunverulegum fréttum. Því miður hefur það ágerst um allan heim að þjóðarleiðtogar leyfi sér að fara afar frjálslega með sannleikann. Sumir halda því fram að rekja megi mikla útbreiðslu falsfrétta til fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, Donalds Trumps, en við verðum að muna að áróðursmaskínur einræðisherra um allan heim hafa í gegnum aldir framleitt heimatilbúnar útgáfur af tíðindum dagsins. Þetta eru auðvitað öfgafyllstu dæmin en við eigum einnig dæmi þess héðan frá okkar annars góða frjálsa lýðræðisríki að ráðamenn leyfi sér að tala þvert gegn betri vitund um málefni líðandi stundar og þannig jafnvel halda því fram að lögbrot séu lögleg þrátt fyrir að vera fullmeðvitaðir um hið gagnstæða.
Nú þegar fjölmiðlum hér á landi fækkar hratt skiptir máli að almenningur standi saman með alvörufréttamennsku sem er gefin út af raunverulegum fjölmiðlum. Við þurfum að standa með þeim því upplýsingaflæðið á afþreyingarmiðlum er endalaust. Það hefur því miður leitt til þess að þrátt fyrir að telja sjálfsagt að greiða fyrir ýmsa afþreyingu virðumst við hika þegar kemur að því að greiða blaðamönnum fyrir mikla og vandaða rannsóknarvinnu í þágu samfélagsins, svo við getum tekið upplýstar ákvarðanir og fengið að vita hvað raunverulega gengur á hér heima og erlendis. Við þurfum að eiga stönduga fjölmiðla sem stunda vandaða blaðamennsku og fyrir það verður að greiða með einum eða öðrum hætti. Ekki tala niður fjölmiðla. Stöndum með þeim og styðjum með áskrift eða annars konar stuðningi ef við eigum þess kost því fjölmiðlar skipta okkur öll máli.
Helga Vala Helgadóttir skrifað greinina í Mogga dagsins í dag.