Fréttir

Stofnuðu Strandveiðifélag Íslands

By Aðsendar greinar

March 08, 2022

„Fiskveiðistjórnarkerfið er andstætt jafnréttisákvæðum stjórnarskrárinnar og ákvæðum um atvinnufrelsi.“
Frá stofnfundinum.

Fréttatilkynning:Strandveiðifélag Íslands, félag um réttlæti í sjávarútvegi, var stofnað laugardaginn 5. mars sl. í gamla Stýrimannaskólanum að Öldugötu 23. Um 170 stofnfélagar höfðu skráð sig fyrir fundinn. Um 50 stofnfélagar mættu á fundinn og auk þess fylgdust um 60 félagsmenn með streymi af fundinum.

Gunnar Ingiberg Guðmundsson, skipstjóri, var kjörinn formaður félagsins og 9 manns kjörin í stjórn og varastjórn.Tilgangur félagsins er að standa vörð um og berjast fyrir rétti almennings til handfæraveiða við  Íslandsstrendur og koma í veg fyrir mismunun í lögum um  fiskveiðistjórnun sem brýtur í bága við stjórnarskrá landsins sem er staðfest alþjóðlega og  innanlands.  Félagið vísar þessu til rökstuðnings í álit  mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 2007 og í niðurstöðu Hæstaréttar Íslands frá árinu 1998, sem kveður á um að fiskveiðistjórnarkerfið sé andstætt jafnréttisákvæðum stjórnarskrárinnar og ákvæðum um atvinnufrelsi.Stofnfundur STÍ, samþykkti samhljóða eftirfarandi ályktun:Ályktun:Strandveiðifélags Íslands, skorar á íslensk stjórnvöld að hlúa að og efla strandveiðar við Ísland. Taka þarf stór skref til að uppfylla álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2007, þar sem kemur fram að íslensku lögin um stjórn fiskveiða brjóti í bága við 26. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um jafnrétti allra manna. Við skorum á löggjafa- og framkvæmdavaldið að taka einnig tillit til niðurstöðu Hæstaréttar Íslands frá 1998 þar sem kemur ótvírætt fram að fiskveiðistjórnunarkerfið eins og það er uppbyggt væri andstætt jafnréttisákvæðum stjórnarskrárinnar og ákvæðum um atvinnufrelsi.Með aukinni umhverfisvitund eru neytendur um allan heim, tilbúnir til að greiða  hærra verð fyrir umhverfisvænan og ferskan fisk. Öflugar handfæraveiðar myndu svara þessu ákalli neytenda og aukinni umhverfisvitund fyrirtækja. 

Við skorum því á  stjórnvöld að nota tækifærið og hámarka verðmæti af fiskveiðiauðlindinni, skapa okkur sérstöðu í framleiðslu og sölu á umhverfisvænum handfærafiski, færa sjávarbyggðum meiri velsæld og tryggara atvinnulíf, m.a með starfsemi fiskmarkaða og afleiddri þjónustu í tengslum við veiðarnar, tryggja jafnræði og atvinnufrelsi, fara vel með hafsbotn og lífríki sjávar á landgrunninu.

En fyrst og fremst sýndi það viðleitni stjórnvalda og sjálfsagða ábyrgð að fara eftir eigin lögum og stjórnarskrá, og breyta umhverfi strandveiði með tilliti til  alþjóðlegra og innlendra dóma og álita um mannréttindabrot með núverandi lögum um stjórn fiskveiða.

F.h. Strandveiðifélags Íslands, Gunnar Ingiberg Guðmundsson, formaður.