Mannlíf

Stofnandinn hrakinn að heiman

By Miðjan

May 28, 2021

Við vitum öll að Viðreisn er hugarfóstur Benedikts Jóhannessonar. Hann stofnaði flokkinn Viðreisn. Nýtt fólk hefur tekið flokkinn hans yfir. Hafnað honum. Eðlilega er Benedikt brugðið. Hann, og einkum hann, sá til þess að sumt að því fólki sem nú hafnar honum, öðlaðist pólitískan frama. Annað hvort endurreistan eða nýjan.

Samfylkingin skaut sig í fótinn með furðuaðgerðum við val á framboðslista. Nú virðist Viðreisn bæta um betur. Benedikt ber ósannindi upp á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur núverandi formann flokksins hans Benedikts. Hann skrifar:

„Formaður Viðreisnar segir á mbl.is að ég hafi hafnað 2. sæti á lista flokksins. Þetta er rangt. Þvert á móti féllst ég á þá beiðni formannsins.“

Þorsteinn Pálsson hafði farið ógætilega að Benedikt og boðið honum að enda alla sína pólitíski drauma. Bara sisona. Það vildi Benedikt ekki. Honum var brugðið og vildi að hann yrði beðinn afsökunar á framferðinu. Það kom ekki til greina. Hvers vegna? Við sem stöndum utan Viðreisnar áttum okkur ekki á hrokanum þar innanhúss.

-sme