Stöðvið grófa kjaraskerðingu öryrkja
Þingmenn: Takið höndum saman í þessum tveimur brýnu málum.
Björgvin Guðmundsson skrifar:
Það undrar mig mjög, að alþingismenn skuli sýna tveimur mikilvægustu hagsmunamálum aldraðra og öryrkja algert tómlæti og vanrækslu. Hvaða mál eru þetta?
Þau eru þessi: 1. Lægsti lífeyrir aldraðra og öryrkja frá almannatryggingum er svo lágur, að hann dugar hvergi nærri fyrir framfærslukostnaði; dugar varla fyrir öllum matarútgjöldum. Þessi lífeyrir er aðeins rúmlega 200 þús. kr. á mánuði.
Alþingismenn! Hrindið ofríki stjórnarflokkanna í krónu-móti krónu málinu. Stöðvið grófa kjaraskerðingu öryrkja og stöðvið mannréttindabrot gegn öryrkjum.
Leiðréttið lægsta lífeyri aldraðra og öryrkja og tryggið þeim mannsæmandi líf. Takið höndum saman í þessum tveimur brýnu málum.
2. Krónu móti krónu skerðingin, sem öryrkjar sæta, er einhver grófasta kjaraskerðing, sem hér hefur sést.
Hún felst í þessu: Öryrki, sem fær 60 þús. kr. aukatekjur (af atvinnu, fjármagni eða öðru má sæta því, að ríkið, TR, hrifsi af honum nákvæmlega sömu upphæð, þannig að hann heldur engu af aukatekjunum. Öll framfærsluuppbót hans er rifin af honum. Allt er það gert í hefndarskyni, refsingarskyni fyrir að öryrkinn vildi ekki samþykkja starfsgetumat, sem stjórnvöld reyndu að þvinga upp á hann! Það liggur við að þetta athæfi stjórnvalda sé glæpsamlegt. Þetta er gróft mannréttindabrot.
Og athugum, að það er verið að beita þessum „glæpsamlegu“ vinnubrögðum gagnvart lægst launuðu þegnum þjóðfélagsins. Hvað er að þessu þjóðfélagi? Og hvernig stendur á því að alþingismenn rísa ekki upp allir sem einn maður og stöðva þessar aðfarir? Þeir loka augunum; aðeins 2-3 þingmenn hafa virkilega gagnrýnt þessar aðfarir. Flestir þingmenn hafa fallið fyrir því áróðursbragði stjórnarflokkanna, að það þurfi einhverja kerfisbreytingu til þess að leiðrétta þennan ósóma. Það þarf enga kerfisbreytingu til þess. Það má afnema krónu móti krónu skerðinguna með einu pennastriki eins og ætlunin var að gera haustið 2016 en hætt var við á síðustu stundu, þar eð öryrkjar vildu ekki samþykkja starfsgetumat. Frá þeim tíma, í rúm 2 ár, hefur verið reynt að kúga öryrkja til þess að samþykkja þetta starfsgetumat. Þetta eru nákvæmlega eins aðferðir og tíðkuðust hjá kommúnistum í A-Evrópu!
Alþingismenn! Hrindið ofríki stjórnarflokkanna í krónu-móti krónu málinu. Stöðvið grófa kjaraskerðingu öryrkja og stöðvið mannréttindabrot gegn öryrkjum.
Leiðréttið lægsta lífeyri aldraðra og öryrkja og tryggið þeim mannsæmandi líf. Takið höndum saman í þessum tveimur brýnu málum.