- Advertisement -

Stöðugt eftirlit með fátækasta fólkinu

…að þetta er kerfisbundið efnahagslegt óréttlæti…

Sanna Magdalena Mörtudóttir skrifar:

Ég hef mikið verið að hugsa um það stöðuga eftirlit sem er á fátæku fólki líkt og þau sem þurfa að treysta á lágar tekjur frá almannatryggingakerfinu. Þegar tekjurnar eru það lágar þá er það að splæsa í kóksdós eða kaffibolla á kaffihúsi ekki ástæða þess að fólk er fátækt. Þrátt fyrir það, heldur fólk að athugasemd eins og „Ég hélt þú hefðir nú ekki efni á þessu“ verði hvatningin sem viðkomandi þurfi til að koma sér út úr vítahring fátæktarinnar. Þar með sér það ekki að þetta er kerfisbundið efnahagslegt óréttlæti sem er viðhaldið af þeim sem telja í lagi að greiða fólki framfærslu sem dugar ekki.

Eftirlitið á sér líka stað í hugmyndafræðilegum stefnum og straumum sem hafa haft neikvæð áhrif á velferðarkefið okkar og grafið undan því. Að þurfa stöðugt að sanna að viðkomandi eigi rétt á framfærslu og/eða stuðningi, að þurfa að réttlæta af hverju þú keyptir þetta eða hitt og fagna en á sama tíma að kvíða 18 ára afmælisdegi barnsins þíns eru dæmi um afleiðingar þessa eftirlits.

Húseigendur þurfa ekki að greiða hærra verð fyrir íbúð sína ef þau leyfa börnum sínum sem eru eldri en 18 ára að búa hjá sér en það geta öryrkjar á leigumarkaði lent í. Húsnæðisstuðningur fer lækkandi eftir því sem tekjur heimilisins hækka. Allar tekjur heimilismanna 18 ára og eldri, geta haft áhrif t.a.m. þegar ungt fólk er að vinna ofan á nám til að eiga fyrir bóka- og tölvukostnaði eða er að vinna til þess að leitast við að létta undir með tekjulágu foreldri.

Líkt og Þuríður Harpa bendir á í þessari góðu grein, þá er erfitt fyrir foreldri sem býr við örorku og reiðir sig á fram­færslu frá al­manna­trygginga­kerfinu, að veita börnum sínum húsaskjól eftir 18 ára aldur. „Viður­lögin við því að fatlað for­eldri veiti barni sínu húsa­skjól eru tekju­missir, ríkis­valdið tekur af heimilis­upp­bót sem getur hæst numið tæpum 54.000 kr. fyrir skatt. Upp­hæðin sem þetta for­eldri hefur til fram­færslu sér og barni sínu er þá um 258.000 fyrir skatt.“

Þegar ég var í námi, þá ákvað ég að taka íbúð sem mér bauðst á stúdentagörðunum eftir talsverða bið. Ég hafði oft heyrt talað um hversu sniðugt það væri að búa í foreldrahúsum á meðan á námi stóð og hugsaði að fólkið sem segði þetta hlyti að eiga foreldra sem ættu pening.

Börn geta ekki öll búið hjá foreldrum sínum á meðan á námi stendur.

Ég reiknaði dæmið til enda og fyrir mig var hentugra að fara á stúdentagarða, borga aðeins meira en hluta af leigu, neti og síma og vera nær skólanum (spara tíma í að ferðast fram og til baka og fá meiri tími til að læra) og mamma myndi þá aftur fá heimilisuppbót. Því að þá væri hún ein og ekki lengur einhver tekjuhár einstaklingur á heimilinu. (Vinnandi námsmenn eru greinilega taldir tekjuháir, samt ekki nóg til að láta dæmið ganga upp en of tekjuháir til að hætta að vinna og eiga rétt á almennilegum námslánum en það er önnur saga).

Börn geta ekki öll búið hjá foreldrum sínum á meðan á námi stendur. Börn geta ekki öll treyst á stuðning foreldra í námi, þó að foreldrarnir vilji hjálpa þá er það oft bara ekki hægt. Okkur fyndist sennilega fáranlegt ef að hússjóður eða fasteignagjöld myndu hækka þegar húseigendur leyfðu börnum sínum að búa hjá sér eftir 18 ára aldur. Að sama skapi fyndist okkur líklegast sérkennilegt ef að 18 ára ungmenni þyrftu að gerast ábyrgðarmenn að húsnæðislánum í þeim íbúðum sem fjölskyldan býr í. Fyndist okkur ekki skrýtið ef að fjárhagsleg ábyrgð yrði sett á 18 ára ungmenni fyrir það eitt að búa í húsnæði sínu með foreldrum sínum? Af hverju er meiri ábyrgð og eftirlit sett á þau sem koma frá tekjulágum heimilum og heimilum þar sem foreldrar treysta á almannatryggingakerfið?

Nú er þetta kannski ekki alveg sambærilegt en ég er að reyna að átta mig á því hvernig eftirlitið myndi líta út ef það yrði fært yfir á fleiri, á þau sem eru ekki í svo viðkvæmri stöðu? Ef við myndum heimfæra þær kröfur sem gerðar eru á þau sem reiða sig á tryggingar almannakerfisins yfir á fleiri í samfélaginu hvernig myndi það líta út? Málið er að það er ekki gert.

Einhverra hluta vegna erum við því miður á þeim stað að það þurfi að fylgjast með fátæku fólki því að það sé að reyna að svíkja. Sem er fjarri því að vera satt. Ef það ætti að vera virkt eftirlit með einhverjum þá ætti það að vera á þau sem setja fjármagnið sitt í skattaskjól, ríkt fólk sem tekur ekki þátt í því að greiða til samfélagsins og þau sem svíkja og eiga meira en nóg og hafa ekki unnið inn fyrir því.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: