Alþingi ræðir í dag frumvarp Pírata um að Alþingi lækki laun þau sem kjararáð hækkaði svo eftirminnilega á kjördag. Jón Þór Ólafsson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
„Heildarsamtök bæði launafólks og atvinnurekenda krefjast þess að Alþingi hafni og dragi til baka nýlegar launahækkanir sem kjararáð ákvað því annars sé hætta á upplausn á vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins segja að kjararáð „stuðl[i] að upplausn á vinnumarkaði“ og Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands „skora á nýtt Alþingi að hafna nýlegum ákvörðunum kjararáðs og leggja málið í sáttaferli“. Alþýðusamband Íslands segir: „ASÍ krefst þess að ákvörðun kjararáðs verði dregin til baka. […] Að öðrum kosti verður óstöðugleiki og upplausn á vinnumarkaði í boði Alþingis.“ Úrskurður kjararáðs hefur því nú þegar skapað hættu á að raska kjarasamningum þorra launafólks og sett stöðugleika efnahagslífsins í hættu. Lögin um kjararáð eru skýr um það að ákvarðanir ráðsins skuli ekki skapa slíka hættu.“
Þetta er meðal þess sem segir í greinagerð með frumvarpinu.
Verði frumvarpið samþykkt, sem telja verður mjög ólíklegt þar sem stjórnarsinnar og Framsókn, munu hið minnsta greiða atkvæði gegn því, munu lögin ekki ná til forseta Íslands. Stjórnarskráin heimilar ekki að lækka greiðslur til hans á kjörtímabili hans.