Fréttir

„Stjórnvöld hafa þá stefnu að afhenda auðmönnum auðlindir þjóðarinnar“

By Miðjan

April 06, 2023

Nokkrar ályktanir voru gerðar á aðalfundi Sameykis. Meðal annars um auðlindir þjóðarinnar og arðinn af þeim. Í alyktuninni segir:

„Aðalfundur Sameykis krefst þess að ríkisstjórnin innheimti sanngjarnt gjald fyrir afnot af auðlindum þjóðarinnar fyrir ríkissjóð Íslands og gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega fyrir það aðgerðaleysi sem hún sýnir í málefnum auðlinda þjóðarinnar. Í ljósi þess hvernig ríkisstjórnin hampar þeim sem nýta þjóðarauðlindir til eigin nota ætti hún að vinna að því að fá svo til allan arðinn til sín. Auðlindaarðurinn er aðeins 2–3% prósent af landsframleiðslunni og ríkisstjórnin verður að snúa við stefnu sinni í að einkavæða arðinn af auðlindum í eigu þjóðarinnar og krefjast tekna til uppbyggingar innviða landsins. Umframhagnaður þeirra aðila sem nýta sér auðlindir þjóðarinnar skilar sér ekki í skattgreiðslum í ríkissjóð. Stjórnvöld þurfa nú þegar að beita sér í innheimtu þessara skatta og beita sér strax fyrir því að gera opinbert mat á verðmætum auðlindanna sem ríkisstjórnin hefur beitt sér gegn að láta framkvæma og hlíft þeim sem njóta arðsins í ræðu og riti.“

Ályktuninni lýkur svona: „Auðlindarentan í fiskveiðum og stóriðju sveiflast með verði á afurðunum. Þegar heimsmarkaðsverð á fiski og áli er hátt, eins og raunin er nú um stundir, verður auðlindaarðurinn gríðarlegur. Stóriðjan greiðir ekkert auðlindagjald og heldur ekki fiskeldið sem nýtir haf og firði til að rækta fisk. Í þeim löndum sem stjórnmálamönnum þykir gott að bera sig saman við á tillidögum er auðlindagjald eða skattur innheimtur af fiskeldi, til að mynda í Noregi, en það er ekki gert hér á landi. Stjórnvöld hafa þá stefnu að afhenda auðmönnum auðlindir þjóðarinnar. Sú aðferðafræði að þiggja brauðmolana er óþolandi fyrir þjóð sem kennir sig við velferð og samfélagslega ábyrgð.“