Stjórnmál

„Stjórnvöld hafa að mörgu leyti brugðist stúdentum“

By Miðjan

March 28, 2021

„Stjórnvöld hafa að mörgu leyti brugðist stúdentum í þessari kreppu,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi.

„Þrátt fyrir að stúdentar hafi sýnt öflugt aðhald og kröfu um betri stuðningsaðgerðir hafa þeir verið látnir sitja svolítið eftir. Ungt fólk er samt sem áður sá hópur sem finnur einna mest fyrir áhrifum þessarar atvinnukreppu. Íslenskir stúdentar vinna auk þess meira með námi en þekkist í öðrum vestrænum ríkjum. Það kemur til af þeirri einföldu ástæðu að grunnupphæð námslána á Íslandi er langt undir dæmigerðu neysluviðmiði stjórnvalda og þá upphæð verður að hækka sem fyrst. Stúdentar eiga nefnilega að geta framfleytt sér á meðan þeir sækja nám og einbeitt sér að því að fullu. Það skiptir mjög miklu máli núna þegar við stöndum frammi fyrir gríðarlegum samfélagslegum breytingum, sannkallaðri tæknibyltingu,“ sagði hann.

„Menntun verður langmikilvægasta fjárfesting stjórnvalda og okkar allra inn í slíka framtíð. Við þurfum á því að halda að hér sé samfélag þar sem ungt fólk fær jöfn tækifæri og hvatningu til að sækja sér færni og menntun við hæfi. Það er lykilatriði til þess að við náum góðum lífskjörum fyrir okkur öll. Við þurfum að styðja kröfur stúdenta um hærri grunnframfærslu og rétt þeirra til atvinnuleysisbóta. Það þarf pólitískan kjark og vilja til að ráðast í það og Samfylkingin hefur bæði þann kjark og þann vilja.“