„Með fjárlögum ársins 2023 sló ríkisstjórnin enn eitt Íslandsmetið í eyðslu, skilaði enn og aftur fjárlögum sem auka ríkisútgjöld um tugi milljarða og halla. Í kjölfarið hækkaði verðbólga í janúar í 9,9% hér á landi, þvert á þróun annars staðar í Evrópu. Um þessa stöðu hefur ríkt nokkuð hávær þögn á stjórnarheimilinu ef frá eru taldar tilraunir til að koma sökinni yfir á almenning í formi skilaboða um að fólk eyði bara miklu, sé ekki að hjálpa, skilji ekki vandann, skilji ekki að við erum öll í þessu saman. Málið er að við erum ekki öll í þessu verkefni saman að hafa hemil á verðbólgunni sem er, svo vitnað sé í orð hagfræðingsins Miltons Friedmans, einn helsti skaðvaldur í hverju þjóðfélagi,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson Viðreisn.
„Friedman hló að þeirri fullyrðingu að neyslu almennings væri um að kenna eða launþegahreyfingunni eða fyrirtækjum. Stjórnvöld beri ábyrgðina og helsta verkefni þeirra á tímum sem þessum sé að hafa hemil á ríkisútgjöldum, að eyða ekki um efni fram. Með stýrivaxtahækkun Seðlabankans í dag standa meginvextir bankans í 6,5%. Þetta eru áttföldun frá því í maí 2021, nokkuð sem er farið að þyngja róðurinn verulega hjá fjölmörgum heimilum og fyrirtækjum landsins. Hlutverk Seðlabankans er að hafa hemil á verðbólgu með vaxtaákvörðunum. Þetta er í raun eini bolti bankans í þessari keppni en yfirstandandi keppnistímabil í baráttunni við þennan landsins forna fjanda hefur nú staðið í u.þ.b. eitt og hálft ár. Ríkisstjórnin hefur töluvert fleiri bolta til að nota en gallinn er að hún kom einfaldlega illa undirbúin til leiks,“ sagði Hanna Katrín og endingu þetta:
„Undirbúningstímabilið var illa nýtt, leikskipulagið er lélegt, samspilið svona og svona og niðurstaðan eftir því. Boltarnir detta dauðir niður eða enda í eigin marki. Og aðhald í ríkisfjármálum komst ekki einu sinni í lið ríkisstjórnarinnar. Ég lýsi eftir afreksstefnu gegn verðbólgu og samhentu, vel völdu liði sem á séns í að vinna þessa keppni fyrir okkur.“