„Umræða sem er smekkfull af tortryggni hefur forskot á alla sem reyna að róa taugar,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson á Alþingi í dag.
Hann sagði ekki þörf á að bæta ímynd Alþingis, heldur verði að bæta Alþingi sjálft.
„Reyndar þykir það tortryggilegt að reyna að róa taugarnar yfir höfuð, það er merki um að vera orðinn samdauna helspilltu öflunum sem raunverulega stjórna. Það hvarflar ekki að neinum að hugsanlega hafi stjórnmálamaður kynnt sér málið rosalega vel og komist að réttri niðurstöðu. Við erum kannski orðin svo vön þessari tortryggni að okkur finnst hún vera eðlilegur hluti af lýðræðislegri umræðu. En það felst í henni ógn, virðulegi forseti. Tortryggnin er ekki gagnvart stjórnmálamönnum sem sitja hverju sinni eða báru ábyrgð á hruninu 2008, hún er farin að beinast gegn getu lýðræðisins sjálfs til að geta tekið ábyrgar ákvarðanir. Í dag er uppgangur afla sem ala á þessari tortryggni og gengur vel vegna þess að því miður er sannleikskorn í tortryggninni. Sporin hræða. Stjórnmálin hafa margoft fallið á prófinu.“
„Þá vilja stjórnmálamenn gjarnan bæta ímyndina með einhverjum hætti. Ég vil beina því til hæstvirts forsætisráðherra að það þarf ekki að bæta ímynd Alþingis, það þarf að bæta Alþingi. Það er ekki spurning um að okkur líði vel hér á Alþingi heldur hvort lýðræðið sjálft muni áfram njóta trausts. Það er mikil og vond tilhneiging í stjórnmálum til að láta eins og allar gagnrýnisraddir séu bara eitthvert tuð. Yfirvöldum finnst þau alltaf rosagagnsæ og samstarfsfús, engum valdhafa finnst hann sjálfur fara illa með völd. En það þýðir ekkert að láta eins og við séum að gera nóg og við hljótum að líta svo á að það liggi fyrir að svo sé ekki,“ sagði Helgi Hrafn.