Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar eftirfarandi á heimasíðu félagsins:
„Þau sem fara með pólitísk völd eiga að axla þá ábyrgð að hemja tilætlunarsemi og græðgi auðvaldkerfisins. En við verðum að horfast í augu við að þarna hafa stjórnmálin brugðist verkafólki og láglaunafólki. Stjórnmálin hafa gengist inn á það að megin verkefnið sé að gæta að „stöðugleika“ með því að vernda hagsmuni, eignir og gróðamöguleika atvinnurekanda.
Þetta kemur berlega í ljós þegar við skoðum hversu ólýðræðisleg efnahagsstjórnin er. Við erum ekki spurð þegar ákvörðun er tekin um hvaða útvaldi iðnaður megi hverju sinni fá frjálsar hendur til að hafa sína hentisemi í íslensku efnahagslífi. Við erum ekki spurð þegar að því kemur að þjóðnýta tapið sem verður þegar kapítalistarnir fara fram úr sér í sínum heimsþekkta óhemjuhætti.
Við eigum að sætta okkur við að vera of smá og ómerkileg til að hlustað sé á skoðanir okkar á svo mikilvægum málum. Við eigum jafnframt að sætta okkur við að vera svo smá að engum komi til hugar að benda á að efnahagsleg velsæld okkar sé kerfinu nauðsynlegt. Þó blasir við að við sjálf, hendur okkar og höfuð, eru sannarlega kerfinu nauðsynleg. Heldur einhver að hér hefðu menn grætt á tá og fingri á nýliðnum árum ef ekki hefði verið fyrir vinnuaflið sem knýr áfram vél hagvaxtarins?
Við megum ekki láta okkur dreyma um að velsæld okkar verði tryggð með sama hætti og velsæld auðstéttarinnar. Okkar velsæld er ávallt hægt að fórna með niðurskurði og hagræðingu. Henni má fórna með því að hleypa fjármagnseigendum í húsnæðismarkaðinn og hafa þannig af stórum hópi vinnandi fólks möguleikann á húsaskjóli (hinni lífsnauðsynlegu „vöru á markaði“) á einhverju sem mætti kalla sanngjarnt verð. Henni má fórna með því að auka skattbyrði okkar svo að hin ríku fái að halda eftir meira að peningunum sínum. Henni má fórna með því að hafa af okkur aðgang að vaxtabótum og barnabótum, vegna þess að auðstéttin þarf að fá að koma fé sínu undan í skattaskjól.
Stjórnmálin hafa brugðist okkar verka- og láglaunafólki, hvort sem er á Íslandi eða úti í heimi. Í stað þess að viðurkenna réttmæti krafna okkar um sanngjarna hlutdeild í afkomu þjóðarbúskaparins, í stað þess að viðurkenna grundvallarmikilvægi okkar í efnahagskerfinu, í stað þess að viðurkenna að án vinnu okkar er það efnahagskerfi sem við lifum í steindautt, að án okkar hætta hjólin að snúast samstundis, hafa stjórnmálin tekið þátt í verkefni nýfrjálshyggjunnar um að „heilbrigðu efnahagslífi“ verði aðeins viðhaldið með því að láta þau sem tilheyra lægri stéttum samfélagsins halda áfram að axla það óréttlæti sem viðgengst á íslenskum vinnumarkaði.
En hverskonar fólk erum við ef við samþykkjum að heilbrigðu efnahagslífi verði aðeins viðhaldið með efnhagslegu óréttlæti? Og hverskonar efnahagsstefna hefur skeytingarleysi gagnvart þörfum almennings sem grundvallarstef? Hvervegna ættum við að samþykkja að lifa áfram undir henni?“