- Advertisement -

Stjórnmálastéttinni er ekki treystandi fyrir völdum

„Það að aðrar reglur gildi fyrir æðstu valdhafa samfélagsins en almenning í landinu er óásættanlegt og nokkuð sem við verðum að uppræta.“

„Ástæðan fyrir því að fólk ber lítið traust til Alþingis er sú að stjórnmálastéttin hefur sýnt að henni er ekki treystandi til að fara með völd. Henni er ekki treystandi til að setja hag þjóðarinnar umfram eigin hag. Stjórnmálamenn hafa ítrekað sýnt það í aðdraganda kosninga hversu tilbúnir þeir eru til að lofa öllu fögru til að halda völdum en treysta svo á gleymni almennings frekar en að efna loforðin.“

Það var Halldóra Mogensen sem sagði þetta í ræðu sinni á Alþingi í gærkvöld.

„Síðasta haust sameinuðust Íslendingar um að krefjast afsagnar þingmanna sem höfðu uppi dólgslæti og montuðu sig af spillingaráformum. En mörgum mánuðum síðar hefur ekkert gerst, ekki annað en það að sú kona sem upplýsti um samtalið hefur verið úrskurðuð brotleg við persónuverndarlög eftir harða aðför þessara þingmanna að trúverðugleika hennar og persónu. Að sama skapi hefur þingkonan sem upplýsti um mikilvægi þess að hefja rannsókn í akstursgreiðslumálinu verið úrskurðuð brotleg gagnvart siðareglum fyrir það eitt að benda á að forsendur séu fyrir því að rannsaka málið,“ sagði hún.

Bára Halldórsdóttir:
Mörgum mánuðum síðar hefur ekkert gerst, ekki annað en það að sú kona sem upplýsti um samtalið hefur verið úrskurðuð brotleg við persónuverndarlög.

„Áherslan er augljós. Það á að laga ásýnd Alþingis frekar en að laga Alþingi. Baráttan snýst um að verja valdið og sannfæra alla um að í því felist virðulegur stöðugleiki. En þessi nálgun mun ekki virka vegna þess að hulunni hefur verið svipt af. Þetta er ekki stöðugleiki og almenningur veit það. Það að aðrar reglur gildi fyrir æðstu valdhafa samfélagsins en almenning í landinu er óásættanlegt og nokkuð sem við verðum að uppræta. Áframhaldandi samtrygging og ábyrgðarleysi grefur undan virðingu Alþingis frekar en að auka hana. Engin hefð er fyrir afsögn þingmanna og geta þeir því setið sem fastast þrátt fyrir skýran vilja almennings um afsögn og þrátt fyrir augljóst tilefni til þess.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: