- Advertisement -

Stjórnmálastéttin má skammast sín

„Allt röfl um að stöðugleika beri að varðveita í svona umhverfi er eins og brandari; þau sem orsaka óstöðugleikann væla hæst um að hann sé til marks um glæpaeðli og heimsku annara. Getu og viljaleysið til að horfast í augu við eigin verk og verkleysi er satt best að segja með ólíkindum.“

Sólveig Anna skrifar: Í nýjasta tölublaði Stundarinnar ef fjallað um þann raunveruleika sem nú blasir við hér á höfuðborgarsvæðinu eftir æðisgenginn uppgang og stórfenglegt hagvaxtarskeið; þúsundir búa í iðnaðarhverfum sökum þess að skelfilegt ástand ríkir á leigumarkaði og húsnæðismarkaði; leigumarkaður hefur verið algjörlega gróðavæddur og ekki hefur verið byggt húsnæði sem alþýðufólk hefur ráð á að eignast. Á síðasta áratug hefur íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem búið er í fjölgað um 84%.

Efnahagskerfi sem getur ekki séð vinnuaflinu fyrir mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegu verði er efnahagskerfi sem glímir við verulega alvarleg vandamál. Til þess að vinnuaflið geti endurnýjað sig á milli þess sem það er ekki í vinnunni þarf það hvíld, mat og húsnæði. Sjúkur fókusinn sem ríkt hefur hér á hagsmuni og aðstæður kapítalista ofar öllu og algjörlega á kostnað þeirra sem er gert að lifa neðar í stigveldinu, sjúkur fókusinn sem stjórnmálin hafa átt mikinn og ríkan þátt í að magna í sífellu, hefur gert það að verkum að enginn fókus hefur verið settur á lífskjör vinnuaflsins og svo auðvitað þeirra sem geta af einhverjum ástæðum ekki unnið. Aðstæður fólks sem tilheyrir þessum hluta af samfélaginu hafa bara ekki vakið neinn áhuga og ekki vakið neinn af þeim glæpsamlega Þyrnirósarsvefni (fyrirgefðu Þyrnirós) sem stjórnmálin hafa sofið árum saman.

Efnahagskerfi sem fer svona með hluta af vinnuaflinu er í miklum vanda. Stjórnmálastétt sem leyfir svona ástandi að líðast gagnvart hluta af vinnuaflinu er stjórnmálastétt sem má skammast sín. Allt röfl um að stöðugleika beri að varðveita í svona umhverfi er eins og brandari; þau sem orsaka óstöðugleikann væla hæst um að hann sé til marks um glæpaeðli og heimsku annara. Getu og viljaleysið til að horfast í augu við eigin verk og verkleysi er satt best að segja með ólíkindum.

Sá mikli antagónismi sem ríkir á milli þeirra sem hér eiga auð og eignir og þeirra sem vinna en eignast samt aldrei neitt er raunverulegur. Hann er ekki hugarsmíði mín eða félaga minna í baráttunni. Hann er djúpur og fer dýpkandi vegna þess að ekkert er gert til þess að draga úr honum af þeim sem raunverulega gætu það. Þvert á móti; það er bókstaflega allt gert til þess að hann verði sem mestur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Að ætlast til þess að fólk þegi og haldi sig á mottunni þegar sífellt berast fregnir af kerfisbundnu efnahagslegu ofbeldi gagnvart félögum okkar er viðbjóðslegt. Og mér dettur ekki til hugar að þegja eða halda mig á mottunni; ef ég gerði það væri ég að lýsa því yfir að mér stæði á sama um örlög og lífskjör annara. Mér er ekki sama, mjög langt því frá og sem betur fer er hér fullt af fólki sem stendur ekki á sama um annað fólk og er tilbúið til að sýna það í verki.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: