„Það er ekki endilega víst að núverandi kynslóðir stjórnmálamanna, sem hafa alizt upp í sýndarveröld almannatengla, séu færar um að taka upp breytta starfshætti og þess vegna sé kominn tími á kynslóðaskipti í stjórnmálum og að það fólk sem finnur vandamálin á eigin skinni taki við.“
Þannig skrifar Styrmir Gunnarsson í Mogga dagsins.
Hann skrifar: „Það má merkja, þegar talað er við ungt fólk sem er að ljúka háskólanámi, að það gerir sér grein fyrir því, að nýjar kynslóðir eru að hefja átök við alvöru lífsins við óvenjulega erfiðar aðstæður. Allt er í óvissu um atvinnumöguleika námsmanna í sumar, hvað þá um framtíðarstörf þeirra, sem eru að ljúka námi.
En það er ekki tóm svartsýni, sem einkennir tal þessa unga fólks. Sumir benda á, að þótt stóriðjan kunni að vera að skreppa saman séu mikil tækifæri í annars konar starfsemi sem byggist á raforku, svo sem í gagnaverum, og bæði Össur og Marel séu dæmi um að nýsköpun geti skilað raunverulegum árangri.“
Og svo aftur að sýndarmennskunni: „Þetta eru alvöruspurningar og alvöruvandamál og það þýðir ekki fyrir stjórnmálin að bregðast við þeim með þeirri sýndarmennsku, sem um of hefur einkennt pólitík síðustu áratuga, þegar meiri áherzla hefur verið lögð á „upplifun“ kjósenda en raunveruleg vandamál í uppbyggingu samfélaga.“