„Ítrekað hefur verið bent á að of sterk yfirráð fárra aðila yfir fiskveiðiauðlindinni þýddu meiri völd til þeirra í þjóðfélaginu en heilbrigt gæti talist og staða þeirra sé of sterk gagnvart stjórnvöldum. Völd þeirra og áhrif í þjóðfélaginu geti verið skaðleg, að áhrif þeirra á ákvarðanir í stjórnkerfinu og á vettvangi stjórnmála geti unnið gegn almannahag.“
Þetta er hluti fínnar greinar sem Oddný Harðardóttir skrifar í Mogga dagsins.
Oddný rifjar upp ríkisstjórnarfund eftir að Kveikur lýsti viðskiptum Samherja í Namibíu. Þar var talað um að bregðast við. Fyrir 500 dögum.
„Það var þann 12. nóvember 2019 að rannsóknarblaðamennska Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks var opinberuð um starfsemi Samherja í Namibíu. Umfjöllunin var ítarleg og studd með gögnum um mútugreiðslur, skattsvik og peningaþvætti. Og okkur brá.
Með umfjölluninni var dregin upp dökk mynd af starfsemi Samherja, eins stærsta fyrirtækis á Íslandi. Stjórnmál, sjávarútvegur og spilling á innan við áratug og teygt arma sína inn í fjölmarga aðra geira en fiskvinnslu á Íslandi.“
„Í plagginu frá ríkisstjórninni, sem var birt fyrir næstum 500 dögum, er talað um að ráðast þurfi í endurskoðun laga um stjórn fiskveiða svo reglur um hámarksaflahlutdeild séu skýrar. Eins og lögin hafa verið túlkuð þá má einn aðili ráða yfir 12% kvótans og því til viðbótar eiga 49% hlut í öllum hinum fyrirtækjunum sem ráða yfir þeim 88% sem út af standa.
Í stað þess að einn aðili þurfi að eiga meirihluta í öðrum til að teljast tengdur aðili, ætti að miða við 25% líkt og viðmiðið er í lögum um skráningu raunverulegra eigenda. Upplýsingar um raunverulega eigendur eru aðgengilegar almenningi. Auk þess að vinna gegn samþjöppun mun þessi breyting auðvelda til muna eftirlit Fiskistofu með tengdum aðilum og mat á því hvort 12% hámarkinu sé náð. Og jafnvel þó að meirihlutaviðmiðið sé almennt viðmið, þá er hér um að ræða sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar sem sérstöku máli gegnir um.