Stjórnlaus húsnæðismarkaður étur upp allan ávinning af félagslegum aðgerðum
Gunnar Smári skrifar:
„Þetta ástand hefur varað áratugum saman og það er löngu orðið ljóst að markaðsörvandi aðgerðir bæta markaðinn ekki neitt.“
Stjórnlaus húsnæðismarkaður étur upp allan ávinning af félagslegum aðgerðum sem ætlað er að bæta kjör almennings, með viðvarandi skorti, óöruggi og okri. Skorturinn eykur hagnað verktaka og braskara og almenningur situr uppi með kostnaðinn, kaupendur er ævina alla að greiða yfirverðið, það þrýstir ráðstöfunarfé þeirra niður fram á grafarbakkann. Vaxtalækkun þrýstir verðinu upp svo nýir kaupendur eru jafn settir á eftir, jafnvel verr. Aðstoð við fyrstu kaupendur gufar strax upp. Hækkun á kaupverði þrýstur upp leiguverði á ótömdum leigumarkaði. Ef það gerist ekki þá selja leigusalar íbúðir sínar og skortur á leiguíbúðum þrýstir upp verðinu.
Þetta ástand hefur varað áratugum saman og það er löngu orðið ljóst að markaðsörvandi aðgerðir bæta markaðinn ekki neitt. Samt eru þær einu aðgerðir ríkisvaldsins. Ástæðan er að stjórnmálafólkið er haldið blindri ofsatrú um að markaðurinn sé ætíð góður en ríkisvaldið, framkvæmdaarmur lýðræðisvettvangsins, ætíð spillandi, slæmur og til skaða. Þetta er vandamálið. Við sitjum uppi með stjórnmálastétt sem þjónar aðeins bröskurunum og heldur fram kenningum þeirra þótt þær hafi fyrir löngu sannaði sig falskar.
Eina lausnin á húsnæðiskerfinu er að byggja 30 þúsund íbúðir á næstu tíu árum inn í aflokað félagslegt kerfi sem er varið fyrir braski. Og byggja svo meira ef þarf. Það leggur Sósíalistaflokkurinn til. Tillögur annarra flokka eru meira og minna framlenging á húsnæðiskreppunni sem grefur undan lífskjörum tug þúsunda fjölskyldna, kremur fólk á milli lágra launa og hárrar húsaleigu og gerir því ómögulegt að sleppa undan okrinu og láglaunastefnunni.