- Advertisement -

„Stjórnarþingmenn láta valta yfir sig“

Willum Þór og Ágúst Ólafur ótrúlega ósammála um sömu gögn, sama lestur.

Þegar þingmenn ræddu fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar kom í ljós ótrúlega ólíkur skilningur af lestri sömu gagna.

Ágúst Ólafur Ágústsson Samfylkingu og Willum Þór Þórsson Framsóknarflokki, og formaður fjárlaganefndar tókust á.

Ábyrgðarlaus, ómarkviss…

„Stundum finnst mér eins og við þingmenn séu ekki að lesa sömu plöggin þegar við erum að fjalla um mál af þessu tagi,“ sagði Ágúst Ólafur.

„Það er alveg ljóst við lestur umsagna hagsmunaaðila að þessi fjármálastefna fær fullkomna falleinkunn. Það kom fram í máli fulltrúa fjármálaráðuneytisins að það bárust um 80 ábendingar og athugasemdir við þessa stefnu. Þau orð sem hagsmunaaðilar nota um þessa stefnu eru stór. Það er talað um að hún sé ógn við stöðugleikann, óraunsæ, ábyrgðarlaus, óvarfærin, ómarkviss, óljós, ósjálfbær, óskýr, ógagnsæ, aðhaldslítil, varasöm og ótrúverðug. Þess vegna átta ég mig ekki á því af hverju meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að stefnan fari einfaldlega fram óbreytt í gegn. Hvernig stendur á því, háttvirtur þingmaður Willum Þór Þórsson?“

Enginn áfellisdómur

Willum Þór svaraði: „Í umsögnum um málið voru ábendingar fjármálaráðs mjög gagnlegar. Þær voru enginn áfellisdómur á stefnuna. En ef ég dreg saman þær umsagnir sem komu þá var bent á að það væri mögulega ekki nægilegt aðhald, en hér er mikil krafa um innviðafjárfestingu. Það var talað um að spá Hagstofunnar væri kannski full bjartsýn, en stefnan verður að byggja á spám. Það var bent á það í nokkrum umsögnum að umsvif hins opinbera hefðu verið að aukast á undangengnum árum. Þetta er samandregið sú gagnrýni sem kom fram í umsögnum.“

Láta valta yfir sig

Ágúst Ólafur kom í ræðustól á ný. „En af hverju ekki að hlusta á hagsmunaaðila og sérfræðingana? Eins og ég gat um fengum við 28 umsagnir, álit, um þessa stefnu og nánast allir, ef ekki allir hagsmunaaðilar og umsagnaraðilar sáu ýmsa galla við stefnuna. Hvernig stendur á því að máttleysi þingsins er svo mikið að ekki er hlustað á eina einustu athugasemd? Þetta voru 80 athugasemdir eða ábendingar. Af hverju láta óbreyttir stjórnarþingmenn stjórnarflokkanna valta svona yfir sig? Þetta er enn eitt dæmið um máttleysi þessa hluta salarins.“

Óvissa í efnahagsmálum

„Ég sé hvergi í einni einustu umsögn að þessi stefna fái falleinkunn,“ sagði Willum Þór. „Það eru orð háttvirts þingmanns. Fyrst og fremst hafa hér verið mjög vandaðar umsagnir og umfjöllun nefndarinnar yfirgripsmikil og mikið verið rætt um efnahagshorfur. Það er vissulega óvissa í efnahagshorfum en það breytir því ekki að stefnan uppfyllir öll grunngildi sem fram koma í lögum um opinber fjármál.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: