Stjórnmál

Stjórnarsinnar verja Bjarna Ben af afli

By Miðjan

March 03, 2023

Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu talaði um deiluna um greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, sem var settur ríkisendurskoðandi í Íslandsbankasölunni, og kom víða við. Hér er hægt að lesa alla ræðuna.

Hér á eftir fer einn kafli ræðunnar:

Ef ég skil rétt það sem gekk á innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eru fulltrúar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ekki aðeins á móti því að skipuð verði rannsóknarnefnd um söluna á Íslandsbanka heldur líka að aflað sé lögfræðiálits eða álita til að kanna hvort stjórnsýslulögum og meginreglum stjórnsýsluréttar hafi verið fylgt.

Fyrir vikið er þessum stóru spurningum um hvort undirbúningur og framkvæmd sölumeðferðarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við lög enn þá ósvarað. Það er bara þannig. Það hefur einfaldlega engin lögfræðileg greining á þessu farið fram, og brandari dagsins er kannski sá að samt finnst stjórnarliðum það alveg gríðarlega veigamikil og mikilvæg niðurstaða, eins og það sé einhvers konar sýknudómur yfir vinnubrögðum fjármálaráðherra og Bankasýslunnar, að ríkisendurskoðandi, sem sjálfur segist ekki hafa kannað og skorið úr um lögfræðileg álitaefni, sem var ekki til þess bær og greinir frá því sjálfur — það kemur líka fram í afmörkunarkafla skýrslunnar um hvað hann skoðaði — að sá aðili vilji ekki nota orðið lögbrot um það sem fór fram og treysti sér ekki til þess, aðilinn sem einmitt sagðist ekki ætla að kanna eða skera úr um það hvort einhver lögbrot hefðu verið framin.