- Advertisement -

Stjórnarsinnar gegn Kristjáni Þór

Byggðamál „Ráðherra hefur fundað með hagsmunaaðilum, sveitarstjórnum og starfsfólki stofnana. Samráðið hefur falist í því að greina frá fyrirætlunum ráðherra og hlusta,“ segir Hjálmar Bogi Hafliðason, bæjarfulltrúi í Norðurþingi og varaþingmaður Framsóknarflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu.

Hann skrifar þar um fyrirætlun Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra um sameiningu, og þá fækkun, heilbrigðisstofnana.

Nokkuð hefur verið fjallað um þetta mál á Miðjunni. Elsa Lára Arnardóttir þingmaður Framsóknarflokksins sagði:  „Sem þingmaður Norðvesturkjördæmis þá er ég afar ósátt við sameiningar á heilbrigðisstofnunum í kjördæminu. Þess ber að geta að um er að ræða einhliða ákvörðun heilbrigðisráðherra. Þetta er ekki ákvörðun Alþingis og ekki hefur verið tekið tillit til sjónarmiða þingmanna kjördæmisins. Afar brýnt er að mínu mati að endurskoða þessa ákvörðun og hefja tafarlaust samvinnu og samráð við íbúa sveitarfélaganna sem hér um ræðir.“

Þar með standa þau saman í málinu, Hjálmar Bogi Hafliðason varaþingmaður Framsóknarflokksins og þingmaðurinn Elsa Lára Arnardóttir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í frétt Miðjunnar fyrr í dag sagðist Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar ósátt með boðaðar breytingar á yfirstjórn heilbrigðisstofnunarinnar í sveitarfélaginu. Bæjaryfirvöld hafa boðist að taka reksturinn að sér, en hafa ekki verið virt svars. Þá óttast heimamenn að sýslumannsembættið verði aflagt og fært til Bolungarvíkur. Varðandi heilbrigðisstofnuna segir Ásthildur: „Ráðherrann hefur kosið að hlusta ekki á rök okkar heimamanna. Við getum ekki sætt okkur við þetta.“ Nánar hér.

Ráðherra hefur ákveðið að sameina heilbrigðisstofnanir innan hvers heilbrigðisumdæmis í landinu næstkomandi haust þar sem ekki var búið að sameina nú þegar. Nú er hann harðlega gagnrýndur fyrir lítið og jafnvel ekkert samráð.

Hjálmar Bogi Hafliðason skrifar meðal annars um að árið 1999, „…voru heilbrigðisstofnanir á Austurlandi sameinaðar í Heilbrigðisstofnun Austurlands. Fram kemur í úttekt Ríkisendurskoðunar árið 2009 að rekstur þeirrar stofnunar hafi gengið erfiðlega og síðan 2003 hefur höfuðstóll verið neikvæður. Ráðherra sagði þegar hann frestaði sameiningaráformum að eitt markmið með þessum áformum væri að nýta fjármuni betur og styrkja rekstrareiningar. Bíðum við; rekstur Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga (þjónustusvæði frá Mývatni allt til Þórshafnar) var jákvæður um 22 milljónir árið 2012 og jákvæður árin á undan. Þá spyrjum við heilbrigðisráðherra; hvers vegna að fórna stofnun sem ber sig? Enda má gera ráð fyrir því að rekstur sameiginlegrar stofnunar beri sig ekki sbr. á Austurlandi.“

„Okkur finnst leiðinlegt að vera sífellt að glíma ríkisvaldið um það sama aftur og aftur. Sömu hugmyndirnar skjóta upp kollinum aftur og aftur. Það skiptir engu hvaða ráðherrar eru. Ég held stundum að þetta séu útópískar hugmyndir embættismanna um rekstur opinberra stofnanna, um að nauðsynlegt sé að spara á landsbyggðinni en ekki í Reykjavík. Það sama gerist við öll ríkisstjórnarskipti og svo þarf að hafa fyrir að tala menn ofan af þessu. Við mótmælum þessu alltaf,“ sagði Ásthildur.

Og Elsa Lára sagði: „Ef þetta verður látið fram að ganga, eins og allt bendir til, þá er mikilvægt að standa vörð um það þjónustustig sem nú er veitt á þeim heilbrigðisstofnunum sem hér um ræðir. Ef eitthvað er þá er nauðsynlegt að bæta við þá þjónustu sem veitt hefur verið. Ef eitthvað bendir til þess að þjónustustig verði lækkað eða fjármagn verði minnkað þá er ekkert annað hægt að gera en að leggja fram breytingu á lagafrumvarpi sem tryggi fjármagn, þjónustustig og fleira sem skiptir máli í þessu samhengi.“

„Við erum einfaldlega orðin langþreytt á hinu svokallaða samráði ríkisins og köllum eftir raunverulegu samtali. Annars geta menn allt eins sleppt þessu og tekið áfram sínar einhliða ákvarðanir,“ segir Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, stjórnarformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, í viðtali við bb.is. „Samráð ráðherra í þessu máli fólst í fundum með forsvarsmönnum Vesturbyggðar þar sem ráðherra var augljóslega búinn að taka ákvörðun í málinu og hafnaði strax öllum hugmyndum heimamanna.“

Hér er nánar úr grein Hjálmars Boga:

„Fyrir skemmstu var auglýst laust starf forstjóra fyrirhugaðrar stofnunar á Norðurlandi. Sú stofnun nær frá Blönduósi í vestri að Þórshöfn í austri. Milli Blönduóss og Þórshafnar eru um 390 kílómetrar. Til að setja hlutina í samhengi eru 388 kílómetrar milli Reykjavík og Akureyrar. Bíðum við; ekki er tilgreint hvar forstjórinn á að hafa aðsetur. Tilvonandi forstjóri getur samkvæmt þessu ákveðið það sjálfur. Það má draga þá ályktun að ákveðin samþjöppun bæði á þjónustu og starfsfólki muni eiga sér stað með sameiningum stofnana. Hvernig ætla menn að ná markmiðinu um betri, öruggari og hagkvæmari þjónustu? Jú, það er búið að ákveða sameiningu á grunni markmiða sem nýr tilvonandi forstjóri á að ná í samstarfi við starfsfólk. Bíðum nú við; kæri heilbrigðisráðherra, í hverju fólst þá samráðið?

Það má einnig draga þá ályktun að fagfólk s.s. læknar búi á sama stað starfsins vegna. Það þýðir að hálaunuð störf þjappast á einn stað og fækkar þar með annars staðar. Það kemur einmitt fram gagnrýni í skýrslu Ríkisendurskoðunar síðan 2009 varðandi Austurland að leita þurfi leiða til að efla faglega stjórnun og reglubundin samskipti starfseininga.

Bíðum við; vegalengdir. Til stendur að sameina allar starfsstöðvar á 390 kílómetra kafla í eina stofnun með það að markmiði að tryggja betri og hagkvæmari þjónustu. Þá spyrjum við heilbrigðisráðherra; hvernig á að tryggja betri og hagkvæmari þjónustu á Þórshöfn? Jú, nýjum tilvonandi forstjóra verður falið að ná markmiðunum sem ekkert samráð er um og taka skellinn ef það tekst ekki. Eins og áður segir, Þórshöfn er eining innan Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga sem var einmitt rekin með 22 milljóna króna hagnaði árið 2012.

Í umræddri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram gagnrýni á heilbrigðisráðuneytið að ekki sé skilgreint hvaða þjónustu Heilbrigðisstofnun Austurlands eigi að veita í samræmi við fjárlög. Í útvarpsviðtali (Reykjavík síðdegis á Bylgjunni, 10. júlí sl.) segir ráðherrann að fyrirhuguð sameining þurfi að taka mið af fjárlögum. Bíðum við; hvað á ráðherrann við? Þá spyrjum við heilbrigðisráðherra; hvað segir í fjárlögum 2014 um sameiningu stofnana og fjárframlög miðað við hvaða þjónustu á að veita? Fjárlög fjalla ekki um skipulag heilbrigðismála.

Það er mikilvægt að taka umræðu um málið enda um grundvallarstefnubreytingu að ræða. Verra er að ráðherra heilbrigðismála hefur enn ekki svarað því hvers vegna þessi breyting á að eiga sér stað nema að því leyti að þeir fjármunir sem fara nú í stjórnun stofnana fari í rekstur þjónustu við íbúana sjálfa. Gott og vel. Þá gildir það að hann sem ráðherra þarf að eiga samskipti við færri stjórnendur sem mun veikja hverja starfsstöð fyrir sig og stuðla að miðstýringu. Það er þvert á markmiðin um aukið sjálfstæði hverrar starfsstöðvar. Ráðherra er hinsvegar búinn að taka þessa ákvörðun og getur státað sig af því að vera sá ráðherra sem tókst það sem aðrir reyndu en féllu frá að gera.

En hvers vegna skyldi það nú vera að menn hafa fallið frá því að sameina allar starfsstöðvar á öllu þessu landsvæði? Jú, vegna þess að það hefur verið talið óskynsamlegt og enginn hefur sýnt fram á að það sé skynsamlegt. Þrátt fyrir markmið og samráð sem ekkert var.“

 

 

 

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: