„Engum dylst að ríkisstjórn og þingmenn standa frammi fyrir vandasömu verkefni og erfiðum ákvörðunum við fjárlagagerðina. En undan þeim verður ekki vikist, þótt kosningar séu eftir rúmt ár,“ skrifar Óli Björn Kárason Sjálfstæðisflokki í Moggann í dag og sýnir þar með að hann er sammála Miðjunni um að kosningabaráttan verður löng en ekki stutt. Eins og Katrín Jakobsdóttir lætur sig dreyma um.
Óli Björn minnir á að Alþingi kemur saman síðar í mánuðinum til að afgreiða nýja fjármálastefnu en 1. október kemur nýtt þing saman og þá leggur fjármálaráðherra fram fjárlagafrumvarp fyrir komandi ár.
Óli Björn setur ríkisstjórninni skilyrði: „Það vitlausasta sem þingið getur gert við núverandi aðstæður er að freista þess að auka tekjur ríkisins með þyngri álögum á fyrirtæki og/eða heimili. Í þeim leik tek ég ekki þátt,“ tilkynnir Óli Björn og telur sig eflaust geta sett ríkisstjórninni skilyrði. Baráttan er kannski einnig hafin innan Sjálfstæðisflokksins. Það kann að vera.
„En að opna fyrir súrefniskrana skatta og gjalda er ekki aðeins skynsamleg leið heldur arðbær fjárfesting til framtíðar fyrir ríkissjóð og almenning. Tekjugrunnur ríkis og sveitarfélaga verður styrkari til lengri tíma og ráðstöfunartekjur launafólks meiri. Þetta er ekki flóknara,“ skrifar formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.