„Stjórnarliðar settu samasemmerki milli arðgreiðslna fyrirtækja og þess að eigendur fyrirtækja svikjust undan skattskyldum sínum,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar á Alþingi, fyrir fáum augnablikum, þegar hún rifjaði upp þingumræðu gærdagsins.
„Tvö stór og mikilvæg mál voru til umræðu í þingsal í gær, annars vegar greiðsla hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti og hins vegar framlenging hlutabótaleiðarinnar. Töluverð orðaskipti urðu um það hvort nægilega langt væri gengið af hálfu ríkisstjórnarinnar til að koma í veg fyrir að fyrirtæki sem nýta sér skattaskjól til að komast hjá því að greiða til samfélagsins lögboðna skatta gætu nýtt sér þau úrræði sem eru í boði.
Annað atriði sem var rætt nokkuð á sömu nótum var það að á meðal skilyrða sem listuð eru upp í hlutabótafrumvarpinu má nefna kröfu um að fyrirtæki greiði sér ekki arð næstu þrjú árin, til ársloka 2023. Gerist það að fyrirtæki sem í dag hefur orðið fyrir þessum hamförum og þarf aðstoð til að greiða starfsfólki sínu hluta af tekjutapinu, launatapið, nái sér á strik á næstu þremur árum og fer að geta skilað hagnaði af rekstri til eigenda í formi arðs, eins og rétt er og langstærstur hluti íslenskra fyrirtækja gerir rétt, vel og skilmerkilega og heldur þannig uppi atvinnulífi, skal viðkomandi fyrirtæki skila því fjármagni sem það fær úr ríkissjóði þessa mánuðina með 15% álagi, óháð því hvort fyrirtækið á sjálft frumkvæði að því að koma með endurgreiðsluna.
Þessi umræða átti sér sem sagt stað. Það eru vissulega fleiri skilyrði en ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að það mátti ráða af orðaskiptum gærdagsins að stjórnarliðar settu samasemmerki milli arðgreiðslna fyrirtækja og þess að eigendur fyrirtækja svikjust undan skattskyldum sínum. Hér var gert tortryggilegt að einhverjir þingmenn vildu með ítarlegri ákvæðum tryggja að skattsvikarar nýttu sér ekki þau úrræði sem eru í boði og að þessir þingmenn skyldu á sama tíma setja spurningarmerki við þetta 15% sektarálag. Þetta þótti stjórnarþingmanni stangast hvort á annars horn.
Herra forseti. Ég ætla ekki að draga neina fjöður yfir það að mér þykir þessi málflutningur umhugsunarverður og sá skilningur sem þarna opinberast takmarkaður. Verst af öllu þykir mér þó að sjá það hugarfar sem með þessari umræðu opinberast í garð íslensks atvinnulífs af hálfu stjórnarþingmanna.“