- Advertisement -

Stjórnarflokkarnir fá rauða spjaldið

Marinó G. Njálsson skrifaði:

Skoðanakannanir halda áfram að sýna óánægju landsmanna með þá flokka sem setið hafa í ríkisstjórn síðast liðin 7 ár. Tala má um niðurlægingu.

Í upphafi núverandi kjörtímabils stóðu flokkarnir keikir, en komu þeir nokkuð vel undan þeim kosningum. Sjálfstæðisflokkur með 24,4% fylgi og 16 þingmenn, Framsókn með 17,3% fylgi og 13 þingmenn og VG með 12,6% fylgi og 8 þingmenn. Einn þingmanna Miðflokksins gekk svo til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.

Nýjasta skoðanakönnu Prósents gefur Sjálfstæðisflokknum 12,3% fylgi og fengju þeir 8 þingmenn út á það, Framsókn fékk 5,8% fylgi og skrapar inn 4 þingmönnum og loks er VG spáð 2,6% fylgi og engum þingmanni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

En kálið er ekki sopið…

Fallið er hátt. Samanlagt fylgi flokkanna fer úr 54,3% niður í 20,7% og þingmenn úr 37 (án flokkaflakks eftir kosningarnar) niður í 12. Yfir 2/3 hluta þingmanna farinn og ríflega 60% af fylginu. Samfylkingin ein er stærri en flokkarnir sem sátu við völd áður en ríkisstjórnin sprakk.

Þetta er svo sem bara æfingaleikir og alvaran er í lok mánaðarins. Allt stefnir hins vegar í, að þjóðin sé að senda þessum flokkum ansi hart orðað uppsagnarbréf. Ykkar starfskrafta er ekki lengur óskað. Við viljum eitthvað nýtt.

Loksins, segi ég bara.

En kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið. Mun eitthvað breytast eða verður þetta bara gamalt vín í nýjum belgjum?

– Verður tekið á óréttlætinu í þjóðfélaginu?

– Verður réttur hlutur þeirra sem minnst mega sín?

– Verður byggt til framtíðar fyrir alla?

– Verður látið af sérhagsmunagæslunni?

– Verða gerðar þær breytingar sem þjóðin hefur óskað eftir varðandi fiskveiðistjórnunarkerfið?

– Verður sussað á fjármálakerfið?

– Verður tekið á húsnæðisskorti?

– Verður réttur neytenda færður til sömu hátta og gerðir EES-samningsins kveða á um?

– Verða nýtt örorkukerfi endurskoðað og hlustað á öryrkja?

– Verða gerðar nauðsynlegar breytingar á lífeyriskerfinu?

– Verður verðtrygging bönnuð á neytendasamningum (líka leigusamningum)?

– Verður kröfuréttur gerður þolendavænni?

– Verður tryggður stöðugleiki?

– Munu stjórnvöld skapa efnahagsumgjörð fyrir lækkun vaxta?

– Verður komið á húsnæðislánakerfi með fyrirsjáanleika fyrir lántaka?

– Verður almenningi tryggður ókeypis aðgangur að nauðsynlegri þjónustu og innviðum?

– Verður tryggt að almenningsveitur hafi forgang að rafmagni til heimila og lítilla og meðalstórra fyrirtækja með hóflegu álagi ofan á kostnaðarverð?

– Verða hagsmunir almennings hafði í forgrunni allra stjórnvaldsákvarðana og frumvarpa að nýju lögum eða breytingum á eldri?

– Verða tillögur stjórnlagaráðs loksins lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá, eins og samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir 12 árum? (Spurning nr. 1 hljóðaði svona: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“)

Verða þessu ekki áorkað, þá var til lítils að gefa Sjálfstæðisflokki, Framsókn og VG rauða spjaldið.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: