„Þetta er nú ekki mikill áfellisdómur. Þetta er svipað og að segja að þetta hafi gengið vel, við unnum leikinn 2–0 en hefðum hugsanlega getað unnið hann 3–0,“ sagði Arnar Þór Jónsson varaþingmaður Sjálgstæðisflokksins.
„Þetta upphlaup hefur tekið heilan dag á þjóðþingi Íslendinga og ég get ekki ímyndað mér að annað þjóðþing í heiminum myndi líða aðra eins tímasóun og hér hefur mátt heyra og sjá. Ég get ekki dregið þá ályktun af þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar að lög hafi verið brotin en ég les það hins vegar út úr orðum stjórnarandstöðunnar að þar sé mikill vilji til að koma höggi á hæstvirtan fjármálaráðherra,“ sagði Arnar Þór.
„Það virðist hafa verið gengið út frá því sem vísu að þessi skýrsla yrði töluvert dekkri en hún í raun er. Hér hafa fallið alls konar ummæli sem væri ástæða til að ítreka hér úr þessum ræðustól af hálfu þeirra sem komu upp fyrir hönd stjórnarandstöðunnar, vísað til þess að skýrslan sýni fram á stórfellt gáleysi og stórkostlegt gáleysi og þessu hafi verið klúðrað og þar fram eftir götunum. Þetta er bara tilgáta en það getur verið að lágt traust almennings á Alþingi skýrist að einhverju leyti af því að fólk leyfi sér að segja hér hluti sem standast ekki skoðun.“