„Þetta eitt og sér vekur verulegar spurningar um hversu stjórntækur flokkur VG er nú, en veruleg breyting virðist hafa orðið á flokknum eftir að Svandís Svavarsdóttir tók við völdum, og er þá ekki aðeins átt við eftir að hún tók formlega við formennskunni,“ er skrifað á Staksteina dagsins.
„Stundum hefur verið á það bent, meðal annars af félögum í VG, að sá flokkur sé ekki vel til þess fallinn að vera í stjórn og fari betur að vera í stjórnarandstöðu. Og mögulega verður hann utan þings eftir framgönguna að undanförnu. Sennilega færi best á því.“
Staksteinar Moggans gera sér mat úr hringingu Guðmundar Inga Guðbrandssonar til ríkislögreglsustjóra í von um að hætt yrði að flytja Yazan Tamimi og hans fólk til Spánar.
Í umræðum í Alþingi í gær stendur í Staksteinum:
„Bætti forsætisráðherra því við að viðkomandi ráðherra hlyti sjálfur að veita þinginu svör vegna þess. Þingmenn hljóta að kalla eftir þeim svörum komi þau ekki að frumkvæði ráðherrans.
Töluvert þarf til að forsætisráðherra svari með þessum hætti en svarið á augljóslega fullan rétt á sér. Félagsmálaráðherra, sem þá var formaður VG, og núverandi formaður VG, gengu bersýnilega allt of langt umrædda nótt og hefur það komið enn betur í ljós eftir því sem atburðir næturinnar hafa skýrst.“
Þarna er látið liggja að því að Svandís hafi verið hinn eiginlegi formaður VG eftir að Katrín steig frá borði.
Víst er að í Mogganum mun verða sótt að VG og helst að Svandísi.