- Advertisement -

Stjórnað af þremur fjölskyldum

Umræðan Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur skrifar athyglisverða grein og birti á Facebook. Greinin er hér fyrir þau sem hafa ekki séð hana:

„Fyrir 30 árum vildi ég hafa áhrif á stefnu Sjálfstæðisflokksins og lýsti því. Reyndur flokksmaður svaraði: „Flokknum er stjórnað af þremur fjölskyldum, þú ert ekki af neinni þeirra“. Það er almenn skoðun mín að skilja beri á milli stjórnmála og atvinnulífs. Menn megi ekki standa í viðskiptum og stjórnmálum samtímis. Ég hef þá ennfremur sértæku skoðun að vegna þess að formaður Sjstfl tengdist gríðarlegri lánsfjárnotkun byggðri á aðgangi að lánsfé sem flest fólk hefur ekki, í BNT/N1-samstæðunni, og útlánatöpum sem af því leiddu, þá sé það ekki trúverðugt að hann leiði flokkin og sé ráðherra. Þessu viðhorfi hef ég marglýst.

Annarra manna fé

Hugtakið „viðskiptalíf“ innifelur bæði atvinnulíf og aðra hagnaðarviðleitni. Þeir sem stunda atvinnurekstur eru nefndir fjárfestar, þeir leggja fé sitt í atvinnutæki, skapa atvinnu og vöxt. Þjóðin vinnur fyrir sér hjá þessu fólki, sem ber heiður og þökk. Það á erindi í stjórnmál, en ekki samhliða rekstri sínum. Hinir eru oft nefndir „spákaupmenn“. Þeir reyna að ná í auð sem aðrir hafa skapað, með eignatilfærslum. Þeir afla sér gríðarlegs lánsfjár og verja til kaupa á fasteignum og hlutabréfum. Kjósendur, sem ekki hafa þennan aðgang, horfa stóreygir á.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Kjósendur borga

Ef allt gengur upp selja þeir eignirnar á háu verði, borga lánin og hirða mismuninn. Almenningur er seinni til að skynja tækifærin og kaupir seint. Almenningur borgar gróða spákaupmanna. Yfirgnæfandi kaupendur að markaðsverðbréfum eru samt lífeyrissjóðir og verðbréfasjóðir. Þeir kaupa jafn og þétt, dreifa áhættunni og eiga bréfin lengi. Hverjir eiga sjóðina? Sparifjáreigendur og sjóðfélagar, stundum nefndir kjósendur. Þeir borga. Stundum fer því miður illa. Menn ná ekki að selja, bólan springur, verð fellur en lán hækka. Það verður útlánatap sem banki þarf að mæta. Hann eykur því vaxtamun sinn og hækkar gjaldskrá. Hverjir borga? Lánþegar og sparifjáreigendur, stundum nefndir kjósendur.

Breytingar hafa orðið

Foringjahollir spyrja hvort skyldleiki við aðila í viðskiptalífinu útiloki þátttöku í stjórnmálum? Svarið er nei, en menn verða að skilja á milli stjórnmála og viðskipta. Lausnin er ekki fólgin í því að setja reglur sem geri mönnum kleift að halda iðju sinni áfram í nafni „gagnsæis“. Það hugtak er ógrundað í lögum og reglum. Ólafur Thors, af einni ættanna þriggja, var samtímis í útgerð. Þá voru aðrir tímar. Nú veita menn hagsmunaárekstrum athygli. Thorsarar hafa fyrir löngu skilið það. H.Ben. fjölskyldan líka. Fjölskyldan sem kennd er við Engey mun læra þetta fyrr eða síðar. Það er mikilvægt að skilja kall samtímans og taka breytingum af skilningi.

Gríðarleg töp

Bjarni Benediktsson hætti afskiptum af atvinnulífinu í árslok 2008, áður en hann var kjörinn formaður flokksins. Síðan hefur Bjarni endurnýjað umboð sitt og fengið stuðning í prófkjörum. Hinir foringjahollu telja það flokknum aldrei til framdráttar að efast um foringjann. Ég hefi sagt sameiningu stjórnmála- og viðskiptaarma Engeyjarfjölskyldunnar í einum manni ekki trúverðuga, ekki geta gengið. Bjarni var í stjórnum BNT og N1. Samkvæmt ársreikningum félaganna voru skuldir þeirra í árslok 2010 rúmlega 47 milljarðar króna, en í árslok 2011 höfðu þær verið afskrifaðar niður í 13 milljarða króna, sem svarar til lækkunar um 34 milljarða króna eða 73%. Vegna þátttöku Bjarna í stjórnum þessara hlutafélaga er staða hans ekki trúverðug. Þetta er mín skoðun og ég tel þessa skoðun flokksholla og málefnalega. Kjósendur munu meta þetta, enginn fær haggað dómi þeirra.“

Aðalfyrirsögnin er Miðjunnar.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: