- Advertisement -

Stjórn SAF tók sér einfaldlega stöðu með okurgjaldtöku Isavia

Eflaust hefur ekki skemmt fyrir ákvörðunartökunni að framkvæmdastjóri Kynnisferða situr í stjórn SAF.

Þórir Garðarsson skrifaði:

Það er ekkert lát á fréttum um ferðaþjónustuna hjá Túrista þrátt fyrir heimsfaraldurinn. Nýjasta fréttin er um að Gray Line hafi sagt sig úr SAF, Samtökum ferðaþjónustunnar. Ég ætla hér að fjalla um einn þátt þessa máls, en þá sem vilja lesa fréttina sjálfa á vef Túrista hvet ég til að gerast áskrifendur að þessum mikilvæga fréttamiðli atvinnugreinarinnar.

Það var þungbær ákvörðun fyrir mig að styðja úrsögn úr SAF. Ég hef starfað mjög lengi innan SAF í þágu heildarhagsmuna ferðaþjónustunnar eins og mörg ykkar vitið. Það þurfti því mikið til að segja skilið við samtökin.

En stjórn SAF hafnaði þeirri beiðni og ástæður þeirrar höfnunar eru henni satt að segja ekki til vegsauka.

Afar sérkennileg afstaða núverandi stjórnar SAF til gjaldtöku Isavia á Keflavíkurflugvelli leiddi til þess að upp úr sauð, þarna var stefnubreyting, Ný stjórn SAF leit sem sé á baráttu Gray Line gegn bílastæðaokri Isavia á fjarstæðum við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli sem deilu milli tveggja félagsmanna í SAF og sagðist ekki geta tekið afstöðu í því máli. Í okkar huga var Gray Line að berjast fyrir hagsmunum allrar ferðaþjónustunnar gegn þeirri áráttu ríkisfyrirtækja og annarra í markaðsráðandi stöðu að hagnast óeðlilega með gjöldum á fyrirtæki í ferðaþjónustu. Stjórn SAF taldi baráttu Gray Line einkamál fyrirtækisins, þó svo að þessi barátta hafi leitt til þess að Isavia neyddist til að lækka bílastæðagjöldin á ALLA hópferðabíla um 50-63%, Ekki aðeins það, heldur fylgdi Gray Line málinu svo vel eftir við Samkeppniseftirlitið að það setti Isavia skilyrði um að útreikningur þjónustugjalda yrði til framtíðar byggður á raunverulegum kostnaði.

Gray Line hefur lagt í mikinn lögfræði- og ráðgjafarkostnað vegna málsins. Þar sem allur ferðabransinn hafði hag af þessum slag óskaði Gray Line eftir því við SAF að samtökin legðu 2 milljónir króna upp í kostnaðinn og það var fordæmi fyrir því. En stjórn SAF hafnaði þeirri beiðni og ástæður þeirrar höfnunar eru henni satt að segja ekki til vegsauka.

Stjórn SAF tók sér einfaldlega stöðu með okurgjaldtöku Isavia og hópferðafyrirtækjunum tveimur sem höfðu gert samning um aðstöðu á nærstæðunum fyrir framan flugstöðina, Kynnisferðum og Hópbílum. Í umfjöllun Túrista um þetta mál er haft eftir Jóhannesi Þór Skúlasyni framkvæmdastjóra SAF að „bæði Gray line og Isavia hafi á þessum tíma verið aðilar að samtökunum. Til viðbótar hafi nokkur önnur hópferðafyrirtæki haft ólíka hagsmuni af niðurstöðu málsins.“

Þessi „önnur hópferðafyrirtæki“ sem Jóhannes nefnir eru Kynnisferðir og Hópbílar, sem studdu okrið  á öðrum hópferðafyrirtækjum með ráðum og dáð, til að koma í veg fyrir samkeppni í akstri frá flugstöðinni. Og þar sem Isavia er félagi í SAF, þá segist stjórnin ekki geta blandað sér í svívirðilega okurgjaldtöku þess á öðrum félögum í samtökunum. Það er af sem áður var þegar hagsmunir heildarinnar gengu framar sérhagsmunum félagsmanna í SAF en það voru 109 fyrirtæki sem greiddu bílastæðagjaldið til Isavia árið 2018 samkvæmt því sem kom fram í úrskurði Samkeppniseftirlitsins.

Það er alveg ljóst hvers taum stjórnin dró í þessu máli.

Engin ástæða var fyrir stjórn SAF til að hafa hagsmuni Kynnisferða og Hópbílum til hliðsjónar í þessu máli. Í fyrsta lagi voru þessi tvö fyrirtæki ekki hluti af baráttu Gray Line gegn bílastæðaokri Isavia. Í öðru lagi kom þessum fyrirtækjum ekkert við hvernig gjaldtöku var háttað á fjarstæðunum við flugstöðina. Samkeppniseftirlitið hnykkti með afgerandi hætti á því í úrskurði sínu, en þar sagði að Kynnisferðir og Hópbílar „hafi ekki átt réttmætar væntingar um gjaldtöku á fjarstæðunum.“

Í frétt Túrista segir framkvæmdastjóri SAF: „Í raun má segja að fjórar ólíkar skoðanir og hagsmunir hafi verið uppi meðal félagsmanna gagnvart málinu. Það gefur auga leið að það er ekki einfalt fyrir samtök eins og SAF að draga taum eins félagsmanns umfram aðra í slíkri deilu.“

En hverjir voru þessir ólíku hagsmunir? Annars vegar óviðkomandi afstaða tveggja félagsmanna og yfirgangur ríkisfyrirtækis gegn hagsmunum heildarinnar. Það er alveg ljóst hvers taum stjórnin dró í þessu máli. Eflaust hefur ekki skemmt fyrir ákvörðunartökunni að framkvæmdastjóri Kynnisferða situr í stjórn SAF.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: