Segir stjórn heilbrigðiskerfisins vera í molum
„Sú staðreynd að heilbrigðiskerfið hefur verið rekið án formlegrar stefnu síðan 2010 er í raun birtingarmynd frumvanda kerfisins sem liggur í því að stjórnskipulag þess er í molum og hefur verið það lengi,“ skrifar Jón Gauti Jónsson, sem er formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja, í Moggagrein.
„Getu- og ábyrgðarleysi ráðuneytisins til þess að starfrækja og viðhalda skilvirku stjórnskipulagi og móta heildstæða stefnu er óskiljanleg og vandræðaleg staðreynd. Stjórnkerfi sem skilgreinir hlutverk, vald, ábyrgð og verkaskiptingu lykilaðila, þar sem markmið og forgangsatriði eru skýr og tryggt að öll hjól gangverksins séu samstiga er frumforsenda þess að hægt sé að innleiða heildstæða og vandaða stefnu,“ segir einnig í greininni.
Jón Gauti dregur hvergi af sér þegar hann fjallar um væntanlega heilbrigðisstefnu: „Það skjal sem núna er í meðförum þingsins og ráðherra kallar heilbrigðisstefnu stendur engan veginn undir því nafni. Það eina sem þetta skjal kemur til með að „standa vörð um“ er ráðherraræðið sem er ekki bara vaxandi lýðræðisvandamál í okkar stjórnarfari heldur líka afar slæm staðreynd þegar við höfum þann einbeitta geðþóttavilja ráðherra að því að færa heilbrigðiskerfið aftur til fortíðar, eins og raun ber vitni.“
Jón Gauti telur heilbrigðisráðherra um starfa í einangrun:
„Stefna sem inniheldur ekki orð um forgangsröðun, aðgerðaráætlanir, árangursmælingar eða aðra mælikvarða getur ekki orðið nokkrum manni leiðarljós. Stefna sem unnin er nánast í algjörri einangrun án samtals og samráðs við hagsmunaaðila innan heilbrigðiskerfisins hvorki í greiningarhlutanum, sem reyndar átti sér varla stað, né í mótun áherslna stendur ekki undir nafni. Svona mætti lengi telja. Það eina rétta í stöðunni er að endursenda þetta skjal aftur heim í hérað og óska eftir því að ráðuneytið endurvinni plaggið með aðstoð sérfræðinga í stefnumótun og í samvinnu við hagsmunaaðila innan kerfisins. Einungis þannig getur raunveruleg, heildstæð og vönduð heilbrigðisstefna orðið til.“