- Advertisement -

Stétt okurkarla var búin til með lögum

Vegurinn til Heljar er varðaður góðum fyrirætlunum, bráðabirgðaaðgerðum, ýmsum skítareddingum og mörgum ósamrýmanlegum markmiðum.

Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri skrifar:

Vorið 1964 var hafin útgáfa á vikublaði er hét „Okurkarlar“. Þetta blað var – eins og nafnið bendir til – helgað stétt okurlánara. Og sú virtist fjölmenn á þessum tíma. Okurlánarar tóku 5% mánaðarvexti – eða um 60% árvexti. Frægastur þeirra allra var Sigurður Berndsen. Sigurður þessi hafði fengið lömunarveiki í æsku og örkumlast – og gat því ekki unnið fyrir sér. Hann fór stunda launsölu áfengi – og síðan okurlán. Viðskiptavini sína kallaði hann „kalkúna“ sem hann taldi heimskastan allra fugla. Hins vegar var okurlánastarfsemin – almennt séð – helst stunduð af lögfræðingum sem ávöxtuðu fé fyrir góðborgara.

Svo braust út heimsstyrjöld og með henni kom verðbólga.

Ég gerði einu sinni stutta rannsókn um okurlán – er var reyfarakennd. Það sló mig að viðskiptavinirnir voru venjulegt fólk – oftar en ekki húsbyggjendur. Ég talaði við nokkra af viðskiptavinum Sigurðar – sem báru honum vel söguna. Hann hafi hjálpað þeim í neyð. Einn sagðist hafa orðið „að láta víxil liggja inni hjá honum, því það væri svo gaman að hitta kallinn“.

Svo þversagnakennd sem það kann að hljóma – þá var stétt okurlánara búin til með lögum frá árinu 1933 sem var ætlað að banna okur. Það var gert með því að setja vaxtaþak sem var 6% fyrir veðbundin lán en 8% fyrir lán með persónuábyrgð. Þannig átti að lækka vexti með lögum.

Svo braust út heimsstyrjöld og með henni kom verðbólga er varð viðvarandi hérlendis um áratugaskeið. Þannig – hækkuðu markaðsvextir langt upp fyrir löglega vexti. Og þá hófst strax svartamarkaðsbrask með lánsfjármagn – sem stóð allt þar til vextir voru gefnir frjálsir á níunda áratugnum. En síðasta okurmálið var tekið fyrir árið 1985.

Hvernig setning laga gegn okri bjó til stétt okurlánara sem „bjargvætti“ fyrir venjulegt fólk – er dæmisaga. Það er ekki hægt að dæma aðgerðir eftir markmiðum heldur eftir árangri. Eins og hið fornkveðna segir – vegurinn til Heljar er varðaður góðum fyrirætlunum, bráðabirgðaaðgerðum, ýmsum skítareddingum og mörgum ósamrýmanlegum markmiðum.

Því er aldrei haldið nægjanlega vel á lofti að peningastefnan er velferðarstefna – sem getur skilað gríðarlegum ábata til almennings ef rétt er á haldið. En hún má sín lítils ein og sér. Allur árangur hlýtur að byggja á samfélagslegri sátt um ekki aðeins markmið hagstjórnar – heldur líka orsakasamhengi í efnahagslífinu. Slík sátt mun tryggja lága vexti á Íslandi til framtíðar (þó þeir kunni að vera hækkaðir eitthvað þegar betur tekur að ára í efnahagslífinu:).

Ef einhver hefur áhuga á greininni um hina merku stétt okurlánara þá er hún hér að neðan.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: