Staksteinar Davíðs hafa pikkað ágæt skrif Bjarna Jónssonar rafmagnsverkfræðings, sem hann skrifaði á blog.is: „Það stendur ekki í stjórnarsáttmálanum að hefja skuli atlögu að því að draga nú hlutfallslega úr þjónustu sérfræðilækna á einkareknum læknastofum og færa þjónustu þeirra ýmist til útlanda eða til ríkisins, enda er engin heilbrigð skynsemi á bak við slíka stefnumörkun; ekki umhyggja fyrir sjúklingum eða skattgreiðendum, heldur einvörðungu forstokkuð og steinrunnin pólitísk hugmyndafræði Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og vinstri sósíalista í öðrum löndum, sem alls staðar hefur gefizt illa.
Hvers vegna fer þá ríkisstjórnin fram með þessum hætti í stærsta málaflokki ríkisins? Það er vegna þess, að heilbrigðisráðherrann er vinstri grænn og gerir það, sem henni sýnist, enda er forsætisráðherrann af sama sauðahúsi.
Sjálfstæðisflokkurinn verður að gefa skýrt til kynna í komandi kosningabaráttu, að hann vilji berjast fyrir eflingu á starfsemi sjálfstæðra lækna innan heilbrigðiskerfisins, þ.e. að auka hlutfallslega hlutdeild þess þáttar heilbrigðiskerfisins í stað þess að eyða honum, eins og Svandís mundar sig til undir merkjum hamars og sigðar.“