„Ljóst er að það stendur ekki steinn yfir steini í áætlunum og yfirlýsingum meirihlutans í húsnæðismálum,“ segir í upphafi bókunnar Framsóknar og flugvallavina í borgarráði.
Á fundi ráðsins í gær var samþykkt að borgin kaupi fimmtán íbúðir af Skugga 4. Fjórir fulltrúar meirihlutans sögðu já, en minnihlutafólkið sat hjá.
Fulltrúi Framsóknar bókaði samstundis: „Ljóst er að það stendur ekki steinn yfir steini í áætlunum og yfirlýsingum meirihlutans í húsnæðismálum. Fyrst stóð til að borgin ætti 40 íbúðir sem dreifðar væru um svæðið en nú er verið að kaupa 7 og 8 íbúðir á sitthvorri lóðinni. Kaupverð hvers birts fermetra í íbúðunum (ásamt meðfylgjandi geymslu) er kr. 438.400. Við sitjum hjá í þessu máli þar sem við teljum að það hefði þurft að gera enn betur í fjölda íbúða og lágmark að standa við gerð samningsmarkmið um 40 íbúðir.“
Bókunin kætti ekki meirihutafólkið sem svaraði með annarri bókun:
„Það er rangt að samþykktir borgarinnar hafi verið um að borgin eignaðist 40 íbúðir á svæðinu. Hið rétta er að kveðið var á um að 40 íbúðir skyldu að lágmarki vera leiguíbúðir, óháð eignarhaldi. Auk þess yrði um kauprétt Félagsbústaða að ræða. Fyrirliggjandi samningar eru í samræmi við þessi samningsmarkmið.“