Stela launum eigin starfsmanna
Efling hefur vart undan að sinna umkvörtunum félagsmanna sem fá greitt vaktaálag fremur en yfirvinnuálag.
„Það er staðreynd að margir veitingahúsaeigendur leyfa sér að í raun og veru stela samningsbundnum launum af starfsfólki sínu,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Tilefnið er ályktun vegna vanefnda fjölmargra atvinnurekenda í veitingahúsageiranum og víðar á ákvæðum um vaktavinnu.
„Þetta gera þeir iðulega með því að greiða vaktaálag í stað yfirvinnu þegar það er ekki heimilt. Vaktavinnuákvæðið í samningi okkar við SA vegna starfsfólks á veitingahúsum hefur því miður orðið að skálkaskjóli fyrir kerfisbundið fúsk. Kjaramálasvið okkar er með fjölmörg dæmi þar sem það er augljóst að atvinnurekendur eru vísvitandi að misnota ákvæðið. Við höfum þurft að leiðrétta launaútreikning fyrir hvern starfsmanninn á fætur öðrum hjá sama atvinnurekanda. Þegar vilji til að uppfylla ákvæði samninga er ekki fyrir hendi og þau eru kerfisbundið misnotuð er augljóst að það þarf að aðhafast. Endurskoðun samninga í vetur þarf að taka þetta inn í myndina, annað kemur ekki til greina,“ segir Sólveig Anna á vefsíðu Eflingar, efling.is.