„Forseti verður að taka undir það að við þessar aðstæður hefði verið tilhlýðilegt að háttvirtur þingmaður hefði haft samband við þann þingmann sem hann hygðist eiga orðastað við, ef um slíkt er að ræða,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, eftir að Rósa Björk Brynjólfsdóttir gerði athugasemd við málflutning Ásmundar Friðrikssonar, á Alþingi í morgun.
„Ég geri athugasemdir við að þingmanninum hafi ekki verið leiðbeint um það að í þingsköpum er liður sem heitir að eiga orðastað við þingmann,“ sagði Rósa Björk.
Tilefnið er tillaga Rósu Bjarkar og fleiri þingmanna um að hér verði möguleikar fyrir konur til meðgöngurofs sé það bannað í þeirra heimalandi.
Ásmundur Friðriksson sagði til dæmis: „Ég velti fyrir mér, þótt ekki væri nema brot af þessum fóstureyðingum ætti að flytjast á Landspítalann, hvernig staðan verði á þungsettum spítalanum og kvennadeildinni. Ég velti líka fyrir mér kostnaðinum, virðulegur forseti: Hver á að greiða fyrir flug og gistingu? Hver greiðir fyrir viðtal, þjónustu og aðgerðirnar sem á eftir fylgir? Hver greiðir fyrir eftirfylgnina, sálfræðiaðstoðina og annað sem hér er í boði?“