Steingrímur J. kaupir ekki Moggann
„Athygli mín var í morgun, mánudaginn 21. febrúar, vakin á því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, nú formaður Viðreisnar en áður þingmaður, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefði skrifað blaðagrein. Nánar tiltekið í Morgunblaðið og beini þar spjótum m.a. að undirrituðum og þeim stjórnmálahreyfingum sem ég hef starfað í um dagana. Ég útvegaði mér greinina og barði mig í gegnum hana,“ skrifar Steingrímur J. Sigfússon í Moggann í dag.
Ljóst er að hann er ekki áskrifandi að Mogganum.
Steingrímur svarar í greininni skrifum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um Alþýðubandalagið og framsal á kvóta. Hún nefndi Steingrím í greininni sem og Svavar heitinn Gestsson en sleppti að nefna þriðja ráðherra Alþýðubandalagsins í þáverandi ríkisstjórn, Ólaf Ragnar Grímsson sem þá var formaður flokksins.
„Greinin er að uppistöðu til ásakanafroða sem ekki er svara verð. Ég hefði því látið kyrrt liggja ef ekki væri það að í niðurlaginu leggur Þorgerður lykkju á leið sína og sparkar í látinn félaga minn og vin. Svavar Gestsson er því miður ekki lengur á meðal vor til að svara fyrir sig. Af hverju segi ég það að þarna leggi Þorgerður lykkju á leið sína? Jú, Þorgerður velur að nafngreina aðeins tvo af þremur ráðherrum Alþýðubandalagsins í ríkisstjórn áranna 1988-1991. Af hverju lét Þorgerður það ekki nægja að nefna bara mig og sleppa þá Svavari Gestssyni eins og hún sleppir Ólafi Ragnari Grímssyni? Getur verið að skýringin sé Svandís Svavarsdóttir? Eða vinnur Þorgerður bara yfir höfuð úr sannleikanum og sögulegum staðreyndum með valkvæðum hætti?“