Marinó G. Njálsson:
Framundan eru hins vegar áhugaverðir tímar og á ég von á að ný ríkisstjórn láti verkin tala.
Teljast verður fagnaðarefni hve margir sýna stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar áhuga. Varla líður sá dagur að ekki birtist frétt í fjölmiðlum um hitt eða þetta sem er vafasamt í skjalinu eða ber að varast. Hef ekki enn séð frétt um margt það jákvæða sem þar má finna.
Heppilegt er hve skjalið er stutt (um 1550 orð), því það hentar vel þjóð sem upp til hópa er haldin einbeitingarleysi og athyglisbresti og treystir á að fá allt matreitt ofan í sig með helst innan við 144 stafa skeytum frá einhverjum sem hefur nennt að lesa innganginn að ítarlegri umfjöllun. Ég hef t.d. ekki enn séð fréttaskýringu um innihald stefnuyfirlýsingarinnar í heild, enda væri til of mikils mælst að nokkur maður myndi lesa slíka langloku um framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar fyrir land og þjóð.
Stjórnarsáttmáli fyrri ríkisstjórnar náði um 70 blaðsíðum (með forsíðu, baksíðu, myndskreytingu og illa nýttum blaðsíðum) og það var allt of langur texti (yfir 9500 orð), því ekki einu sinni þingmenn stjórnarflokkanna og sumir ráðherrar vissu hvað stóð í skjalinu. Skálduðu gjarnan upp eitthvað, sem gekk þvert á greinar stjórnarsáttmálans, í þeirri von að engin sannreyndi hvort rétt væri farið með.
Þrátt fyrir að stefnuyfirlýsing núverandi ríkisstjórnar sé ekki löng, þá er hún samt of löng til þess að hægt er að vitna rétt í hana. Atriðið um ríkisfjármál er aðeins 47 orð (samanborið við 198 í stjórnarsáttmála BDV frá 2021), en samt er verið að túlka það sem þar stendur út og suður, samanber frétt á mbl.is í dag gefur í skyn. Lyft er öllum steinum til að finna einhvern sem getur sett út á orðaval í skjalinum, sem þó ætti að vera öllum ljóst, sem hafa einbeitingu til að lesa það, að það er vegvísir en ekki leiðarlýsing. Það er hins vegar ekkert nýtt, að markaðir þoli ekki óvissu, enda þurfa menn þá að hafa fyrir því að græða peninga, en ekki hagnast fyrirhafnarlaust.
Hægt væri að skrifa langa færslu um allt það sem stendur í stjórnarsáttmála BDV frá 2021 sem ekki gekk eftir eða hreinlega var gengið gegn. Ég ætla hins vegar ekki að gera það, því það er að baki. Framundan eru hins vegar áhugaverðir tímar og á ég von á að ný ríkisstjórn láti verkin tala. Komi upp ágreiningur, þá verði hann leiddur til lykta eftir samræður, en verið viss um, að hve lítill sem sá ágreiningur mun verða, þá verður hægt að lesa um það í fjölmiðlum.
Gleymum svo ekki, að við erum samferða á þjóðarskútunni og viljum að hún ferðist í rétta átt fyrir heildina. Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar er að því leyti ekkert frábrugðin öllum stjórnarsáttmálum svo langt sem slíkir sáttmálar hafa verið útbúnir. Þessi skjöl marka stefnuna, en leggja ekki götuna. Það er verkefnið framundan hjá hverri ríkisstjórn. Að leggja sína götu, sem þjóðin vill búa við og ferðast eftir.
Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós. Hún er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.