Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fer fremstur þeirra sem girnast sparifé fólks. Almenningur treystir ekki enn og mun trúlega ekki gera í langan tíma enn. Svo illa fóru allskyns braskarar með sparifé þúsunda að eðlilegt er að fólk hafi varan á sér. Óli Björn er talsmaður frumvarps þar sem gert er ráð fyrir skattaafslætti til þeirra sem vilja hætta sparnaði sínum.
„Hlutabréfamarkaðurinn er mikilvæg uppspretta fjármagns og veitir fyrirtækjum aðgang að nauðsynlegu áhættufé. Skilvirkur hlutabréfamarkaður er óaðskiljanlegur hluti öflugs efnahagslífs. Sterkur markaður þar sem fyrirtæki hafa greiðan aðgang að fjármagni til fjárfestingar og vaxtar á að vera keppikefli stjórnvalda ekki síður en að byggja upp skilvirkan og samkeppnishæfan fjármálamarkað í heild sinni,“ skrifar hann í Moggann í dag.
Kannski er verið að knýja á um skattaafslátt til þeirra sem komu með fúlgur fjár í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans. Þar var veittur góður afsláttur. Jafnvel af peningum sem „týndust“ í hruninu. Kann að vera að sumir vilji meira.
„Auðvitað tryggir skattaafsláttur til einstaklinga ekki einn og sér öflugan hlutabréfamarkað,“ skrifar Óli Björn og heldur áfram:: „Með því að þátttakendum fjölgar verður hlutabréfamarkaðurinn dýpri, verðmyndunin eðlilegri og markaðurinn þar með heilbrigðari. Það sem skiptir kannski mestu: Það er verið að styrkja fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga og gera þeim kleift að taka þátt í atvinnurekstri. Þannig eru hagsmunir almennings og atvinnulífsins samtvinnaðir. Áhugi og þar með þekking á atvinnulífinu og stöðu hagkerfisins, eykst.“