Gunnar Smári skrifar:
Aðlögun skattkerfisins að óskum hinna auðugu, tilfærsla verkefna frá ríkisvaldinu til sjóða verkalýðshreyfingarinnar og braskvæðing húsnæðiskerfsins valda því að kjör lágtekjufólks batna lítið þrátt fyrir sérstakt átak til að hækka lægstu laun. Það markmið, að auka jöfnuð, skarast á við stefnu stjórnvalda varðandi grunnkerfi samfélagsins. Þar er stefnan að draga úr jöfnuði, nota ekki þau tæki sem í boði eru til að auka jöfnuð.
Og þetta veldur því að launahækkanir til láglaunafólksins nýtast illa, en magnar einnig upp spennu á vinnumarkaði sem vandséð er hvernig leysist nema með algjörri stefnubreytingu stjórnvalda. Ef verkalýðshreyfingin mætir undirbúin til samninga í haust má ætla að þær viðræður snúist einmitt um þetta, að stjórnvöld láti af stefnu sem vinnur gegn jöfnuði.
Hvert fer hækkun launa?
Þessi spenna milli skattastefnu stjórnvalda og viljans til að bæta kjör lágtekjufólks er auðséð þegar skoðað er yfir lengri tíma hvað verður um launahækkanir til hinna lægst launuðu.
Ef við notum 6. launaflokka Starfsgreinasambandsins eftir þrjú ár þá hefur hann hækkað um 218% frá janúar 2007 eða um 49% umfram almennt verðlag. Og í raun hafa launin hækkað meira en þetta, þar sem tryggingargjald hefur hækkað, iðgjöld í lífeyrissjóði og gjald í starfsendurhæfingarsjóð; gjöld sem tekin eru af launum áður en launaseðillinn er prentaður út. Heildarlaun fólks sem fær greitt samkvæmt 6. launaflokki SGS eftir þrjú ár hefur því hækkað um 55% á þessum tíma.
Útborgunin hefur hins vegar aðeins hækkað um 36%. Ástæðan er að framlag í sjóði verkalýðshreyfingarinnar hefur hækkað um 54%, iðgjöld í lífeyrissjóði um 95% og skatturinn, staðgreiðsla og tryggingargjald, um 146%.
50% skatthlutfall á launahækkanir
Í upphæðum er dæmið svona á verðlagi dagsins: Heildarlaunin hafa hækkað um 164 þús. kr. Árið 2007 fóru 25,6% af heildarlaununum í skatta, iðgjöld og félagsgjöld. Miðað við óbreytt hlutfall hafa 40 kr. meira farið í félagsgjöld, 12.429 kr. meira í lífeyrissjóð og 26.775 kr. meira í skatt, samtals 39.244 kr. Í stað þess að tæplega 42 þús. kr. hafi farið í skatta og gjöld miðað við hlutfallið frá 2007, voru tæplega 83 þús. kr. teknar af hækkun heildarlauna. Við það hækkaði hlutfallið úr 25,6% í 33,6%.
Það merkir að hlutfallið, samanlagt skatthlutfall, lífeyrisiðgjöld og félagsgjöld, af launahækkuninni var 49,5%, eða nánast helmingur. Fyrir hverja krónu sem láglaunafólkið fær í launahækkun fór bara hálf til fólksins. Hinn helmingurinn var tekinn af laununum til ráðstöfunar fyrir aðra.
Það er því í reynd hátekjuskattur af launahækkunum lágtekjufólksins.
Skuggaskattkerfið vinnur gegn jöfnuði
Ástæða þess að þetta gerist liggur skattkerfinu. Annars vegar er hluti þess einskonar skuggaskattkerfi, iðgjöld í lífeyrissjóði og ýmsa sjóði á vegum verkalýðshreyfingarinnar. Sjúkrasjóðir, orlofssjóðir, starfsmenntasjóðir og starfsendurhæfingarsjóðir eru allir stofnaðir til að stoppa upp í göt á velferðarkerfinu. Eins og einnig má segja um lífeyrissjóðina. Samanlagt fara í dag 14,9% af launum láglaunafólks í þessa sjóði, sama hlutfall og af launum hátekjufólks. Þetta eru flöt gjöld og gagnvart þeim gildir ekki sú regla að þau borgi mest sem eru helst aflögufær en þau minna sem eiga erfitt með að ná endum saman. Þarna gildir engin tekjujöfnun eins og gerist í sýnilega skattkerfinu.
Og ofan á þetta bætist tryggingargjaldið, sem er 6,35% ofan á heildarlaun. Láglaunafólkið greiðir því rúm 20% af heildarlaunum sínum í flata skatta og gjöld. Eins og hátekjufólkið. Þetta er skuggaskattkerfi sem er flatt, viðheldur ójöfnuði en vinnur ekki gegn honum.
Og þetta kerfi er stærra en sýnilega skattkerfið. Af rúmlega 498 þús. kr. heildarlaunum fólks í 6. launaflokki eftir þrjú ár fara fara tæplega 101 þús. kr. í skuggaskattkerfið en rúmlega 66 þús. kr. í það sýnilega.
Skatthlutfall láglaunafólks hækkar
Sýnilega skattkerfið er síðan rekið þannig að jaðarskattar eru háir svo skatturinn tekur hlutfallslega meira af kauphækkunum en hann tók af laununum sem voru fyrir. Þó skiptir mestu að persónuafsláttur er ekki látinn fylgja verðlagi svo yfir tíma þyngist skattbyrðin, einkum hjá hinum lægst launuðu þar sem hver króna í persónuafslátt skiptir máli.
Ef við tökum dæmi af fólki á 6. taxta SGS eftir þrjú ár þá borgaði það fólk 9,8% staðgreiðslu af dagvinnulaunum sínum í janúar 2007 en borgar nú 15,9%. Ástæðan er að persónuafsláttur hefur hvorki haldið í við verðlag né laun. Bara þessir munur leiðir til þess að fólkið fær 25.444 kr. minna útborgað í dag en ef hlutföllin hefðu haldið.
Ekki hægt að lifa af lægstu launum
Og það eru krónur sem láglaunafólkið þarf sannarlega á að halda. Í dag fá þau sem vinna fulla vinnu á 6. taxta SGS eftir þrjú ár 327 þús. kr. útborgaðar af um 492 þús. kr. heildarlaunum. Samkvæmt framfærsluviðmiðum Umboðsmanns skuldara þarf einstaklingur tæplega 209 þús. kr. til að lifa af áður en kemur að húsnæðiskostnaði, tryggingum og fleiru. Fólkið á því aðeins 118 þús. kr. upp í húsaleigu, rafmagn, hita og tryggingar. Ef við miðum við meðalverð á 50 fermetra íbúð er sá kostnaður aldrei minni en um 210 þús. kr., þar af húsleiga kr. 190 þús. Til frádráttar henni koma 40.633 kr. í húsnæðisbætur. Fólkið á 6. taxta SGS eftir þrjú ár vantar því rúmar 51 þús. kr. til að lifa af mánuðinn.
Og ástæðan? Að hálfu leyti er staðan þessi vegna þess að skattar og gjöld hafa hækkað. Ef fólkið borgaði sama hlutfall heildarlauna sinna í skatta og gjöld og var 2007 væri gatið ekki 51 þús. kr. heldur 12 þús. kr. Það munar um það.
Húsnæðisbætur hækka, en leigan miklu meira
Húsnæðisbætur tóku við af húsaleigubótum fyrir nokkrum árum. Í apríl 2008 voru húsaleigubætur hækkaðar svo verkafólk sem bjó eitt og var með laun samkvæmt 6. taxta SGS eftir þrjú fékk 18 þús. kr. í húsaleigubætur sem gera rúmlega 35 þús. kr. á núvirði. Húsnæðisbæturnar hafa því hækkað um 5.370 kr. umfram verðlag. En á sama tíma hefur húsaleigan hækkað mun meira, samkvæmt yfirliti Hagstofu, eða um tæplega 40 þús. kr. fyrir litla 50 fermetra íbúð. Húsnæðiskostnaður láglaunafólks sem býr eitt hækkaði því um tæplega 29 þús. kr. umfram verðlag þrátt fyrir hækkun húsaleigubóta.
Aðeins 1/3 situr eftir hjá verkafólkinu
Ef við bætum leigusalanum við það sem fram kom hér að ofan, þá skiptist ávinningurinn af 164.044 kr. hækkun frá 2007 á heildarlaun verkafólks á 6. taxta SGS eftir þrjú ár svona:
- Sjóður á vegum verkalýðsfélaga: 3.253 kr.
- Lífeyrissjóður: 29.565 kr.
- Skattur: 48.380 kr.
- Leigusali: 28.539 kr.
- Samtals aðrir: 109.737 kr.
- Verkafólkið 54.307 kr.
Þarna situr aðeins þriðjungur eftir hjá láglaunafólkinu. Tveir þriðju fara annað. Auðvitað er eðlilegt að verkafólkið greiða skatta og gjöld af launahækkunum. En ef hlutfallið hefði verið það sama og áður og ef húsaleiga hefði ekki hækkað umfram verðlag hefði verkafólkið haldið eftir 67.783 kr. meira en raun varð á, eða 122.090 kr. af hækkun heildarlaunanna. Sem gera 74% af hækkuninni en ekki 33%, eins og raun varð á.
Þrjár ástæður hrörnunar
Ástæðan fyrir háum jaðarskatti á launahækkanir lágtekjufólks eru breytingar á skattkerfinu á nýfrjálshyggjuárunum. Þá var skattur á meðaltekjur og einkum lægri tekjur hækkaður til að fjármagna lækkun skatta á auðugt fólk. Fjármagnstekjuskattur og fyrirtækjaskattar voru lækkaðir og eignaskattar aflagðir. Tekjujöfnun skattkerfisins var nánast drepin. Það er innbyggt inn í skattkerfi nýfrjálshyggjunnar að vinna ekki að jöfnun tekna. Og áhrifin eru þau að skattkerfið dregur úr jöfnun tekna þegar lægstu laun eru hækkuð sérstaklega.
Inn í þetta tengist líka skugga-skattkerfið. Hrörnun velferðarríkisins, sem stefnt var að frá miðbiki síðustu aldar, kemur fram í að eftirlaun og ýmis þjónusta, sem áður var skilgreind sem hlutverki ríkisvaldsins og fjármögnuð með stighækkandi sköttum, er nú rekin utan hins opinbera kerfis og fjármögnuð með flötum gjöldum sem hafa engin tekjujafnandi áhrif.
Og síðan bætist við niðurbrot húsnæðiskerfsins í kjölfar þess að ríkisvaldið dró sig til hlés og opnaði fyrir brask- og græðgisvæðingu þess. Það spann upp íbúða- og leiguverð og gróf undan lífskjörum almennings, einkum þeirra sem veikast standa.
Veiking velferðar veldur spennu á vinnumarkaði
Það eru því ekki aðeins launakjörin sem valda því að láglaunafólki hefur ekki tekist að komast út úr fátækt. Þegar það sækir eðlilegar launahækkanir renna þær að mestu leyti til annarra; til ríkis, sjóðakerfa og leigusala.
Og þetta veldur óróa í samfélaginu. Vegna veikleika skattkerfisins, húsnæðiskerfisins og félagslega sjóðakerfisins þarf láglaunafólkið að sækja miklu meiri hækkanir en annars væri. Það þarf að sækja þrjár krónur fyrir hverja krónu sem það vill nota til að bæta kjör sín. Og þar sem launahækkanir til hinna lægst launuðu gefa fordæmi um launahækkanir til fólks með miðlungstekjur og þar umfram, veldur niðurbrot kerfa velferðarríkisins því að sjálfsagðar kröfur láglaunafólksins valda óþarfa spennu á vinnumarkaði.
Spenna – enginn stöðugleiki
En þetta er stefna stjórnvalda. Þau vilja sveigja skattkerfið og öll grunnkerfi samfélagsins, og þar með talið húsnæðiskerfið, að þörfum hinna ríku og að gróðasókn braskara og okrara. Á sama tíma halda þau aftur af launakröfum verkafólks. Ofan á niðurbrot velferðar veldur þetta spennu og átökum, sem á endanum munu leiða til uppreisnar.
Þessa stefnu sem skapar spennu og óróa kalla stjórnvöld stöðugleika.
Hér hefur þessi vandi verið skýrður á einfaldan hátt, með dæmum að einstaklingi á lægstu launum. Sýnt hefur verið fram á hvernig skattkerfið og grunnkerfi samfélagsins hafa unnið gegn kjarabaráttu þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Í framhaldinu munum við skoða dæmið út frá sjónarhóli fjölskyldna láglaunafólks. Og þá versnar dæmið heldur betur. Meira um það seinna.