Hér á eftir fer stuttur kafli úr Moggaviðtalinu við Kristrúnu Frostadóttur formann Samfylkingarinnar. Hún útilokar ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en varar við stefnu þess flokks. Hún segist hafa sagt við fólk að hætta að fókusera á Sjálfstæðisflokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn virðist henni ofarlega í huga. Hér er stuttur kafli úr þessu langa viðtali. Fyrst er það spurning blaðamanns Moggans og svo svo svar formanns Samfylkingarinnar:
Útilokar þú ríkisstjórnarsamstarf við einhverja flokka, til dæmis Sjálfstæðisflokkinn?
„Ég hef ekki viljað fara þá leið að útiloka flokka og fyrir því er einföld ástæða. Ég vil að fólk kjósi Samfylkinguna út af okkur, ekki út af því hvað við erum ekki. Mér finnst stimplar sem felast í því að segja: Við lofum að gera ekki þetta til marks um flokk sem treystir sér ekki til að segja: Þetta eru okkar verkefni, treystið okkur til verka og þið fáið ríkisstjórn sem skilar verkefnum af sér.
Ef stefnan sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið undanfarin ár og áratugi verður óbreytt eftir næstu kosningar þá mun það hamla framförum í svo að segja öllum okkar stóru málaflokkum svo mjög að afar erfitt verður að fara í ríkisstjórn með þeim.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn yrði, á einhverjum tímapunkti, örflokkur, þá væri verið að eiga við allt öðruvísi flokk í ríkisstjórn. Hingað til hefur vandinn með Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn verið sá að hann hefur verið forystuflokkur í landsmálum af því hann hefur verið stærsti flokkurinn.
Ég hef sagt við fólk: Hættum að fókusera á Sjálfstæðisflokkinn og það hvort ég ætla að vinna með honum. Komið með mér í það verkefni að gera sósíaldemókratískan flokk á Íslandi að stærsta flokki landsins. Sameinum fólk frá miðju til vinstri og sköpum okkur stöðu þar sem við þurfum ekki á Sjálfstæðisflokknum að halda.“