- Advertisement -

Stefna ríkisstjórnarinnar birtist í fjárlögunum

Þá eru framhaldsskólar að fá beinlínis „lækkun“ á fjármunum milli ára.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifar:

Að sitja í fjárlaganefnd Alþingis er heilmikil vinna enda mikið fundað um stór mál. En að sama skapi er sú vinna afar fróðleg. Þarna fær maður innsýn í 1.000 milljarða kr. bókhald ríkisins. Og þarna birtist pólitíkin grímulaust. Hins vegar þarf oft að rýna ansi djúpt í 400 bls. frumvarpið ásamt 200 bls. fylgirit til að finna það sem raunverulega er í frumvarpinu. Nú er vinnan við frumvarpið nýhafin og hef ég því tekið saman nokkra áhugaverða punkta sem mér finnst að fólk eigi að vita af.

1. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri fá nánast sömu raunupphæð og í fyrra. Þess vegna er algerlega óskiljanlegt þegar menntamálaráðherra getur endalaust talað um „stórsókn“ í háskólamálum.

2. Þá eru framhaldsskólar að fá beinlínis „lækkun“ á fjármunum milli ára. Og aftur er það skrýtin stórsókn sem ráðherra er svo tíðrætt um. Eina stórsóknin í menntamálum virðist vera í yfirlýsingum menntamálaráðherrans.

3. Endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar (sem er mjög mikilvæg!) er lækkuð um tæp 30%.

4. Framlög til Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknasjóðs lækka!

5. Framlög til Jafnréttissjóðs og Lýðheilsusjóðs lækka!

6. Þrátt fyrir augljósa þörf og mikinn halla hjá LSH vill ríkisstjórnin ná 1,2 milljarði kr. í aðhaldi úr heilbrigðiskerfinu. Á meðan er ófremdarástand á bráðamóttökunni og 130 eldri borgarar látnir „búa“ á spítalanum vegna skorts á öðrum úrræðum.

7. Rekstur vegna uppbyggingar á hjúkrunarrýmum á næstu árum er ekki fjármagnaður.

8. Fjármagn til hjálpartækja er lækkað.

9. Fjármagn til endurhæfingarþjónustu er lækkað.

10. Viðbótarinnspýtingin til öryrkja er rúmur milljarður en þetta er einmitt sami milljarður og meirihlutinn tók út í meðförum þingsins í fyrra og við töluðum okkur hás í að gagnrýna. Þessi milljarður dugar skammt í að afnema kr. á móti kr. sem kostar um 10 milljarða kr. Enn eru öryrkjar því látnir bíða eftir réttlætinu (sem Katrín Jakobsdóttir sagði í stjórnarandstöðu að þeir mættu bara alls ekki gera).

11. Framlög til almennrar lögreglu eru að lækka umtalsvert.

12. Aldraðir fá enga innspýtingu umfram það sem kemur vegna fjölgunar í þeirra hópi.

13. Veiðileyfagjöldin hafa verið lækkuð um tæp 40% síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum. Og lækkun bankaskatts er núna sett í forgang og áfram skal fjármagnstekjuskatturinn vera lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum. Forgangsröðun Vinstri grænna, Framsóknar og þingmanna Sjálfstæðisflokksins er alveg kristalskýr hér.

14. Hætt er við að afnema samnýtingu skattþrepa en sú ákvörðun gagnast helst tekjuhærri fjölskyldum landsins. Um 93% af endurgreiðslunni nýtast til hækkunar ráðstöfunartekna karla og hvetur samnýtingin til minni atvinnuþátttöku tekjulægri maka í samsköttun sem oftast eru konur.

15. Sérstök aðhaldskrafa í fjárlagafrumvarpinu er lögð á sjúkrahús, öldrunarstofnanir og skóla.

16. Umhverfismál fá heil 2% af fjárlögum. Þegar 98% fjárlaga fer í annað má velta fyrir sér hversu ofarlega umhverfismálin eru. Aftur eru það helst yfirlýsingar ráðherra sem eru bólgnar og það sem er helst sett í forgang eru blaðamannafundirnir.

Þess vegna er það eðlilegt að mínu mati að velta fyrir sér hvort þetta sé það sem kjósendur vilja og kusu um í síðustu kosningum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: