Stefna á óbreytta ríkisstjórn
Hanna Katrín:
„Það er vilji til þess meðal ríkisstjórnarflokkanna að halda þessari ríkisstjórn áfram og þetta er stefnuplaggið.“
„Við getum ekki lokað augunum fyrir þessum vanda óháð því hvaða skoðun menn hafa á mikilvægi krónunnar — ég geri mér grein fyrir því að þingmenn hafa ólíka skoðun á því,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, á Alþingi þar sem rætt var um fjármálaáætlun til ársins 2026.
„Sumir telja fullveldi og sjálfstæði landsins velta á því að íslensk króna sé hér, aðrir kunna ekki við að gefa eftir í baráttunni gegn Evrópusambandinu með því að opna augun fyrir þessum vanda o.s.frv. En vandinn hverfur ekki með því að loka augunum fyrir honum. Hann er til staðar. Þessi viðbótarkostnaður er þarna. Stuðningsmenn krónunnar vísa gjarnan til þess að hún sé nauðsynleg til að halda atvinnustigi í landinu háu svo að hægt sé að fella gengið og lækka kaupmátt almennings án þess að kalla það launalækkun. En það er launalækkun og við búum núna við atvinnuleysi í hæstu hæðum. Leiðin út úr atvinnuleysi felst ekki síst í því að við náum að efla hér nýsköpun og það sem meira er, að við náum að halda í hagkerfinu okkar þeim fyrirtækjum sem vaxa upp á grunni nýsköpunar fyrir tilstilli frumkvöðla. Krónan hjálpar ekki þar,“ sagði hún.
„Það eru að koma kosningar. Það er vilji til þess meðal ríkisstjórnarflokkanna að halda þessari ríkisstjórn áfram og þetta er stefnuplaggið. Þetta eru fyrirætlanir ríkisstjórnar um rammann og grunnsviðsmyndir fyrir endurreisn atvinnulífsins næstu ár.“