Davíð segir embættismenn hafa skipað sér í fylkingar.
Stefán Eiríksson borgarritari hefur leikið afdrifaríkan afleik ef marka má viðbrögð borgarstjórans fyrrverandi, Davíðs Oddssonar.
„Margt er með öðrum hætti um þessar mundir en tíðkast hefur og æskilegt væri. Borgarbúar hafa til dæmis fengið að fylgjast með því að tilteknir embættismenn borgarinnar veitist að kjörnum fulltrúum borgarbúa og tali til þeirra með þeim hætti að augljóst er að embættismennirnir hafa skipað sér í fylkingu og geta ekki notið trausts allra borgarfulltrúa eða borgarbúa.“
Þannig skrifar Davíð i Moggann sinn í dag.
Hvað sem því líður er ekki mikill bragur á skrifum Stefáns meðan hann nafngreinir ekki þá borgarfulltrúa sem honum er í nöp við. Það er óþolandi fyrir borgarfulltrúa að vera settir í kastljós umræðunnar, án þess að hafa nokkuð til þess unnið. Skrif Stefáns voru þess efnis að hann verður að klára þau.