Stefán Einar er sáttur með söluna á Fjaðrárgljúfri og vill gjaldtöku: „Enn betra ef eigendurnir græða á því í leiðinni“
Stefán Einar Stefánsson – umsjónarmaður þáttanna Dagmál á mbl.is – er ánægður með fréttirnar af Fjaðrárgljúfri; segir að „þetta eru mjög góð tíðindi að öllu leyti.“
Eins og kunnugt er verður náttúruperlan Fjaðrárgljúfur í Skaftárhreppi að öllu óbreyttu seld einkaaðilum hér á landi; frestur ríkisins til þess að nýta forkaupsrétt sinn á jörðinni er runninn út, og eigendur hafa samþykkt kauptilboð sem þeim hefur borist.
Íslenska ríkið hefur á síðusta áratug lagt um það fimmtíu milljónir króna í uppbyggingu á svæðinu; styrkir hafa til dæmis verið nýttir í gerð salernisaðstöðu, göngustíga og útsýnispalla við gljúfrið. Hingað til hefur verið frír aðgangur að náttúruperlunni, en ekki hefur fengist uppgefið hvaða fyrirtæki hafi keypt landið, né hvort væntanlegur eigandi hafi í hyggju að taka upp gjaldtöku.
Stefán Einar yrði afar sáttur ef gjaldtaka yrði tekin upp; jafn sáttur og að ríkið hafi ekki nýtt forkaupsrétt sinn og nefnir nokkrar ástæður fyrir skoðun sinni:
„Í fyrsta lagi að Fjaðrárgljúfur skuli seljast fyrir dágóða upphæð. Í öðru lagi að ríkið sé ekki kaupandi enda er það einn verst eigandi að náttúruperlum sem hugast getur. Í þriðja lagi að stefnt skuli að friðlýsingu.“
Stefán Einar leggur áherslu á að það verði „að treysta því að gjaldtöku verði komið á þarna til þess að fjármagna viðhald og uppbyggingu; gjaldtaka, hvort sem það er við Kerið í Grímsnesi eða í þjóðgarðinum á Þingvöllum, hefur sannað sig og við þurfum að auka hana um allt land.“
Hann nefnir að lokum að „hóflegt gjald fyrir aðgengi að náttúrunni tryggir þessa staði best til frambúðar. Enn betra ef eigendurnir græða á því í leiðinni.“