- Advertisement -

Stærsta réttlætismál fjöldans er að ná völdunum úr höndum auðvaldsins og sendisveina þess

Verkalýðshreyfingin hefji þegar vinnu til að móta tillögur um róttækar breytingar á lýðræðisvettvanginn svo hann þjóni hagsmunum félaga í verkalýðshreyfingunni.

Ég legg hér fram tillögu.

Lýðræðisvettvangurinn er spilltur af valdi auðstéttarinnar sem hefur í reynd sveigt stjórnmálin undir sig, stjórnsýsluna og dómskerfið. Þetta á ekki aðeins við auðvaldsflokkanna sem geta keypt sér atkvæði og búa að því að fjölmiðlar, umræðuvettvangur samtímans, er í eigu auðvaldsins; heldur hafa þeir flokkar, sem rætur eiga í verkalýðsbaráttu liðinnar aldar, sveigst frá því að þjóna lágstéttunum yfir í að verða meðreiðarsveinar auðvaldsins og virkir þátttakendur í að færa valdið frá almenningi og sveigja allar grunnstoðir samfélagsins að hagsmunum hinna auðugu og valdamiklu. Lýðræðisvettvangurinn er orðinn hluti af valdi auðstéttarinnar, líkt og var fyrir tíma almenns kosningaréttar.

Almennur kosningaréttur hafði mikil áhrif í okkar heimshluta frá því hann var innleiddur á öðrum og þriðja áratugnum og þar til auðvaldinu hafði tekist að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og finna leiðir til að nota auð sinn og vald í samfélaginu til að brjóta þennan vettvang undir sig.
Á Íslandi hafði almennur kosningaréttur mikil áhrif í upphafi, lagði í raun niður stjórnmál að hætti borgarastéttarinnar. Með stuðningi Alþýðuflokksins komst Framsóknarflokkurinn til valda snemma á þriðja áratugnum og það var ekki fyrr en fimmtán árum síðar, eftir endurskipulagningu stjórnarmála borgarastéttarinnar undir Sjálfstæðisflokknum, sem er stjórnmálaflokkur borgarastéttarinnar búinn undir baráttu á vettvangi alþýðustjórnmála, að borgaraöflin komust aftur til valda; fyrst með því að mynda stjórn með alþýðuflokkum verkalýðsins og miklum málamiðlunum. En síðar með Framsókn, sem var komin á hraðleið til hægri eftir því sem völdin flokknum fluttust frá grasrótinni til kommissara Sambandsins og Kaupfélaganna, og Alþýðuflokknum, sem var líka á hraðleið frá hagsmunabaráttu verkalýðsins að samfélagshönnun sérfræðiveldis hreyfingar og flokks.

Í dag er helmingur verkalýðsins ekki með kosningarétt, þar sem auðvaldið flytur inn réttindalaust vinnuafl til að sinna mikilvægustu vinnunni.

Upp úr 1980 má segja að auðvaldið hafi tamið lýðræðisvettvanginn og eftir 1990 megi segja að hann hafi fyrst og síðast snúist um velferðarríki auðvaldsins; að ríkisvaldið sé fyrst og síðast tæki í höndum fyrirtækja- og fjármagnseigenda. Þetta sést vel í aðgerðum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sem leggur alla áherslu á að bjarga fyrirtækja- og fjármagnseigendum, sannfærð um að samfélagið byggi í raun á þeim. Ef auðvaldinu líður vel, þá líður öllum vel.

Þetta er staðan. Fjöldinn hafði möguleika á að ná völdum í gegnum lýðræðisvettvanginn en afl og völd auðvaldsins var slíkt að kannski var það alltaf óskhyggja. Í dag er helmingur verkalýðsins ekki með kosningarétt, þar sem auðvaldið flytur inn réttindalaust vinnuafl til að sinna mikilvægustu vinnunni. Afl verkalýðshreyfingarinnar hefur verið snúið niður, bæði formlega með takmörkun á heimildum til verkfalla og aðgerða sem bíta og með hugmyndalegum sigrum hægrisins, sem vill skilgreina að vettvangur verkalýðsfélaganna sé aðeins á þröngt skilgreindum vinnumarkaði og helst aðeins um kaup og kjör. Ekki um lýðræði á vinnustöðum, ekki um stefnu fyrirtækja o.s.frv.

Og hvað gerum við þá?

Einn kostur er að byggja upp Sósíalistaflokkinn, hvetja grasrót Samfylkingar, VG, Framsókn og Pírata að varpa af sér forystu sem er hægrisinnaðri en kjósendur þessara flokka.

Einn kostur er að byggja upp Sósíalistaflokkinn, hvetja grasrót Samfylkingar, VG, Framsókn og Pírata að varpa af sér forystu sem er hægrisinnaðri en kjósendur þessara flokka og viljugri að þjóna auðvaldinu, er jafnvel háð því efnahagslega og í bandalagi með því umdeilingu valds og áhrifa; hið vanhelga hjónaband auðvalds og stjórnmálaelítunnar, sem er tæki auðvaldsins til að beygja undir sig stjórnmálavettvanginn. Með vinstri sveiflu alls stjórnmálaspektrúmsins skapast tækifæri til að taka upp þráðinn frá 1950 og reyna að umbreyta samfélaginu frá lýðræðisvettvangi fulltrúalýðræðis og flokka. Með því að reyna að grípa vatnaskilin sem eru að verða á Vesturlöndum, afhjúpun grimmdar og getuleysis kapítalismans og upprisu kúgaðra hópa, má vera að það skapist gluggi svo hægt sé að sveigja gerspillt kerfi stjórnmálanna að hagsmunum almennings um stund, mögulega nógu lengi svo kapítalið verði tjóðrað við staur svo það geti ekki náð annarri gagnbyltingu gegn hagsmunum almennings.

Hinn kosturinn er krafa um að lýðræðisvettvangnum verði umbreytt svo hinum valdalausu verði tryggður beinn aðgangur að honum. Þá á ég við að slembivelja sveitarstjórnir og Alþingi, til að tryggja að þær endurspegli vilja, vonir og væntingar fólksins sem myndar lýðveldið. Þessi ráð, sem setja lög og móta stefnu, væru þá einskonar kviðdómar sem myndu sækja sér þekkingu fræðafólks og reynslu þeirra sem lifa innan kerfanna sem eru til umfjöllunar; verkafólks, sjúklinga, nemenda o.s.frv. Ég ætla ekki að útfæra þessa tillögu frekar, það er augljóst að henni þarf að fylgja miklar varnir svo hin riku geti ekki keypt upp slembivalda fulltrúa, um vinna þurfa að gilda reglur svo raddir allra heyrist og þau frekustu, ríkustu og best tengdu valti ekki yfir rest.

En tillagan er þessi: Verkalýðshreyfingin hefji þegar vinnu til að móta tillögur um róttækar breytingar á lýðræðisvettvanginn svo hann þjóni hagsmunum félaga í verkalýðshreyfingunni. Það er stærsta réttlætismál fjöldans, að ná völdunum úr höndum auðvaldsins og sendisveina þess.
Ég tek fram að þetta er ekki tillaga sem gerir Sósíalistaflokkinn óþarfan. Þvert á móti. Sósíalistaflokkurinn er stjórnmálaafl sem alltaf hefur haft meiri trú á að hægt sé að ná breytingum á samfélaginu í gegnum verkalýðsbaráttu og aðra frelsisbaráttu almennings og kúgaðra hópa en að hægt sé að knýja í gegn breytingar í gegnum lýðræðisvettvanginn, sem augljóst er að sveigður hafi verið undir hagsmuni og vilja auðstéttarinnar. Og þó ég leggi hér til að verkalýðshreyfingin leggi fram kröfur um róttæka uppstokkun á lýðræðisvanginum mun Sósíalistaflokkurinn halda áfram að ryðja sér braut inn á lýðræðisvettvanginn, bæði í sveitastjórnir og á þing, til að hleypa þar inn röddum hinna kúguðu, fátæku og valdalausu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: