Spunakarlar og þriðji orkupakkinn
Ef til vill hefði það ekki átt að koma á óvart hversu grimmdin og virðingarleysið fyrir skoðunum annarra er mikið þegar kemur að þriðja orkupakkanum.
Óli Björn Kárason gerir umræðuna um orkupakkann að umfjöllunarefni í vikulegri grein sinni í Mogganum.
„Ef til vill hefði það ekki átt að koma á óvart hversu grimmdin og virðingarleysið fyrir skoðunum annarra er mikið þegar kemur að þriðja orkupakkanum. En það er merkilegt hve sumir, jafnvel sæmilega málsmetandi menn, eru gjarnir á að forðast málefni, brjóta þau til mergjar og takast á með rökræðum við þá sem eru annarrar skoðunar. Þeim fellur betur að nota klisjur og innantóma frasa,“ þetta er meðal þess sem þingmaðurinn skrifar.
„Eitt skýrasta merki rökþrots er þegar gripið er til hálfsannleiks og ósanninda. Spunakarlar hafa lengi trúað því að ef nægilega lengi sé hamrað á einhverju muni almenningur, hægt og bítandi, líta á staðleysu sem staðföst sannindi.“
Síðar segir þetta í greininni:
„Þið þingmenn sem ætlið að styðja þetta O3 mál, verðið taldir landráðamenn,“ skrifar andstæðingur orkupakkans á fésbókarsíðu samherja sinna. „Hrein landráð að samþykkja þennan pakka,“ segir annar. Sá þriðji heldur því fram að í öðrum löndum sé eftirfarandi setning notuð yfir slíka einstaklinga: „Enemies of the state.“
Ráðherra er sagður vitleysingur og hugsi aðeins um „eigin vasa og pólitíska félaga“. Falsfréttum er komið í loftið um gríðarlega fjárhagslega hagsmuni af því að innleiða orkutilskipunina. „Bófi eins og allir hinir pólitíkusarnir,“ er dómur sem er felldur og því haldið fram að viðkomandi sé „lygari“.
Nafngreindir ráðherrar eru „aðal-gangsterar“ en þingmenn eru „heiladauðir“. Einn er á því að á Alþingi sitji „glæpamenn“.“
Keppni um gífuryrði og svívirðingar
„Orðræðan er orðin að keppni um mestu gífuryrðin, dylgjurnar og svívirðingarnar. Hæfileikinn til að laða fólk við fylgis við málstað er aukaatriði. Engin leið er að eiga orðastað, skiptast á skoðunum og rökræða við fólk sem dregur aðra niður í svað með brigslum um landráð, sviksemi, blekkingar og glæpamennsku.
Við Íslendingar höfum ákveðið að nýta fullveldi okkar til að eiga samvinnu við aðrar þjóðir – samvinnu sem er okkur lífsnauðsynleg og er undirstaða góðra lífskjara. Alþjóðleg samvinna er ekki einstefna, þar sem við fáum allt fyrir ekkert. Það er hins vegar nauðsynlegt að við séum gagnrýnin, gætum að hagsmunum lands og þjóðar. Ekkert er yfir gagnrýni hafið og allra síst EES-samningurinn með öllum sínum kostum en einnig göllum. En okkur verður ekkert ágengt og vinnum engum gagn með meinyrðum, dylgjum og falsi. Þá festumst við í vef öfganna og komumst ekkert áfram,“ skrifar Óli Björn.
Eðlilegt að hafa áhyggjur
„Eðlilegt er að margir hafi áhyggjur þegar kemur að skipulagi raforkumála. Þess vegna er nauðsynlegt að spyrja gagnrýnna spurninga áður en tekin er ákvörðun um hvort innleiða eigi þriðju orkutilskipunina:
- • Erum við Íslendingar með einhverjum hætti að afsala okkur eignaryfirráðum og nýtingaryfirráðum yfir orkuauðlindunum?
- • Eru líkur á því að við innleiðingu þriðju orkutilskipunarinnar skerðist samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs eða lífskjör almennings svo sem með hækkun raforkuverðs?
- • Erum við Íslendingar, beint eða óbeint, að skuldbinda okkur til að samþykkja lagningu sæstrengs?
Svör við þessum spurningum hafa vegið þyngst í mínum huga. Við öllum þessum spurningum var svarið nei.“