Líkurnar á að ríkisstjórnin springi í loft upp aukast hratt. Heilbrigðismálin kunna að verða sprengiefnið. Þau ein virðast aðskilja Vinstri græn og Sjálfstæðisflokks. En milli flokkanna er himinn og haf í skoðunum á hvert beri að stefna í heilbrigðismálum.
Hreint ómögulegt er að ímynda sér að sættir náist milli flokkanna. Föst skot ganga á milli og grein þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins vegur þungt og skiptir stuðningsflokkunum í tvær fylkingar.
Þá vigtar þungt að allir þingmenn Vinstri grænna, utan ráðherranna, standa saman að lagafrumvarpi sem á að koma í veg fyrir að ríkið semji við fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem rekin eru með hagnað að sjónarmiði. Markmiðið með frumvarpinu er að taka af allan vafa um að heilbrigðisráðherra hafi heimild til að semja aðeins við þá veitendur heilbrigðisþjónustu sem ekki eru reknir í hagnaðarskyni.
Þetta er allt annað en segir í grein þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Þar segir til að mynda: „Það er engin glóra í þeirri sviðsmynd sem birtist okkur í umræðunni um liðskiptaaðgerðir. Sjúklingar eru sendir til útlanda á sama tíma og hægt er að framkvæma allt að tvær til þrjár aðgerðir fyrir verð einnar hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækjum hér heima. Þetta er fráleit ráðstöfun fjármagns og svar ráðherrans að ekki sé gert ráð fyrir fjármunum til að framkvæma aðgerðirnar hér heima er algerlega út í hött.“
Og hvernig er þessum skrifum tekið innan herbúða Vg: „Þetta er grimm stjórnarandstaða þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Ekki gagnrýni heldur árás á Svandísi,“ sagði Rósa Björk í Silfrinu rétt í þessu. „Þetta fólk gekk inn í stjórnarsamstarfið með opin augu,“ sagði hún.
Ásdís Halla Bragadóttir hefur ekki bara hagsmuna að gæta, hennar skoðanir vega þungt innan Sjálfstæðisflokksins. Hún skrifar:
„Væri ekki gaman að sjá enn metnaðarfyllri hugmyndir frá Vinstri grænum og að tekið yrði fyrir hagnað allra þeirra sem selja það sem flokka má undir grunnþarfir fólks? Undir það fellur t.d. vatn, matur og húsaskjól sem fjöldi fyrirtækja höndlar með. Og ekki má gleyma apótekum sem selja sjúku fólki lyf. Væri ekki best að banna alveg að fyrirtæki greiði arð? Þá gætum komið í veg fyrir allar fjárfestingar, framþróun og nýsköpun – og á svipstundu orðið marxískasta samfélag heims.“
Ólafur Hauksson almannatengill skrifar: „Það er saga til næsta bæjar að með Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn sé stefnt hraðbyri að heilbrigðiskerfi sem aðeins gallharðir kommúnistar láta sig dreyma um.“
Það hefur orðið verulegur trúnaðarbrestur milli stjórnarflokkanna tveggja, Sjálstæðisflokksins og Vinstri grænna. Takist að halda ríkisstjórninni saman verður hún ekki söm eftir, því hver sem lendingin verður í heilbrigðismálunum er víst að sárin lokast ekki við einhverskonar reddingar.
Þetta segir um heilbrigðismál í stjórnarsáttmálanum:
Íslenska heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu.
Ríkisstjórnin mun fullvinna heilbrigðisstefnu fyrir Ísland með hliðsjón af þörfum allra landsmanna og skilgreina betur hlutverk einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og samspil þeirra. Mótuð verða markmið og leiðir í heilbrigðismálum í samvinnu við fagstéttir og embætti landlæknis í þeim tilgangi að stuðla að góðu heilbrigði þjóðarinnar og skapa eftirsóknarverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Heilsugæslan verður efld sem fyrsti viðkomustaður notenda. Framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna Landspítala munu hefjast næsta sumar.
Efla á nýsköpun í heilbrigðismálum þannig að Ísland verði í fremstu röð og nýti sér nýjustu tækni á þessu sviði, þ.m.t. fjarlækningar.
Ríkisstjórnin ætlar að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og gera það gagnsærra og skilvirkara. Þar þarf að meta árangur núverandi kerfis með hliðsjón af veikasta fólkinu og skoða þá þætti sem eru ekki hluti af því, t.d. ferða- og uppihaldskostnað, tannlækningar og sálfræðiþjónustu.
Geðheilbrigðisáætlun til 2020 verður hrint í framkvæmd og hún fjármögnuð. Geðheilbrigðisþjónusta á heilsugæslustöðvum og sjúkra- húsum úti um land verður efld og bráða- og barna- og unglingageðdeildum Landspítalans verður tryggt fjármagn til að standa undir rekstri þeirra. Heilbrigðisþjónusta í framhaldsskólum verður efld með áherslu á geðheilbrigði.
Ríkisstjórnin mun leggja sérstaka áherslu á forvarnir og lýðheilsu, meðal annars í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu og með stuðningi við íþróttir, æskulýðsstarf og öldrunarstarf. Skoðuð verður beiting efnahagslegra hvata til eflingar lýðheilsu.
Skortur á hjúkrunarrýmum veldur auknu álagi á sjúkrahúsin og skerðir lífsgæði aldraðra. Fyrir liggur að þörf fyrir uppbyggingu er veruleg á næstu fimm árum. Ráðist verður í stórsókn í uppbyggingu og mun hún birtast í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hluti fyrirhugaðs Þjóðarsjóðs gæti nýst í þetta verkefni. Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila en áhersla verður einnig lögð á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu.