Jónas heitinn Kristjánsson sat eitt sinn gegnt mér á fréttastjórakontórnum mínum. Okkur vantaði blaðamann til starfa. Við köstuðum á milli okkar nöfnum og svo kom að Jónas sagði eitthvað á þessa leið, ekki að fullu sáttur með tvær síðustu hugmyndirnar mína; sme, það þýðir ekkert að ráða sjónvarpsfólk.
Ég spurði hvers vegna og svarið kom strax og var auðskilið. „Það eru svo margir speglar þar.“ Málið var útrætt.
Þessi saga er með öllu óskyld því sem ég ætla að segja, en kannski ekki svo fjarri.
Kannski hefur það fólk sem hefur komið sér fyrir í Ráðhúsi Reykjavíkur liðin ár verið of upptekið af sjálfu sér. Staldrað of oft við fyrir framan speglana sem þar eru.
Nú ber svo við að komið er nýtt fólk til starfa. Meðal nýrra borgarfulltrúa er fólk sem vill þetta ekki, nennir þessu ekki og það skapar vandræði hjá þeim sem fyrir eru. Svo mikil að reynda fólkið fer á taugum og grípur til þess ráðs að ulla á hitt fólkið. Því komið er óþolandi fólk í húsið, að mati þeirra sem skapað hefur ríkjandi kúltúr.
Kannski er fyrsta skrefið í leit að jarðtengingu í Ráðhúsinu að taka niður speglana.
Fyrst að ég byrjaði á að segja sögu verð ég líka að ljúka þessu með því að segja sögu. Þegar Sigmundur Davíð var forsætisráðherra og ég fréttastjóri eða fréttaritstjóri á Fréttablaðinu, man ekki hvort var enda sama starfið, að hann kvartaði við mig. Sagði okkur birta betri myndir af sér en Degi borgarstjóra.
Ég horfði á forsætisráðherrann og hugsaði strax, en Dagur er mun myndarlegri maður en þú, getur það verið skýringin. En þar sem aðgát skal höfð í nærveru sálar, sagði ég: „Getur verið að Degi þyki skemmtilegra að láta taka mynd af sér.“ Sem ég efast ekki um að hafi verið rétt.