- Advertisement -

Sótt að þingmönnum Samfylkingarinnar

Gunnar Smári skrifar:

Miðað við nýjustu könnun MMR er Samfylkingin nú með 13,8% fylgi þessa dagana en fékk 12,1% í kosningunum 2017. Þá fékk flokkurinn sjö þingmenn; þar af sex kjördæmakjörna (einn í hverju kjördæmi) og einn jöfnunarmann (sem lenti í NA eftir röð tilviljana, sem úthlutun jöfnunarmanna vanalega er).

Að því er best er vitað ætla allir þingmenn Samfylkingarinnar að gefa aftur kost á sér. Oddvitarnir í kosningunum 2017 voru:

  • RN: Helga Vala Helgadóttir
  • RS: Ágúst Ólafur Ágústsson
  • SV: Guðmundur Andri Thorsson
  • NV: Guðjón S. Brjánsson
  • NA: Logi Einarsson
  • S: Oddný Harðardóttir

(Uppbótarþingmaðurinn er svo Albertína Friðbjörg Elíasdóttir í NA)

Miðað við könnun nýjustu könnun MMR fengi Samfylkingin 9 þingmenn. Ef við dreifum þessu fylgi milli kjördæma í sömu hlutföllum og fylgi Samfylkingar dreifðist 2017 þá er líklegast að viðbótin komi úr öðru Reykjavíkurkjördæminu annars vegar og hins vegar úr Suðvestri. Til að eiga möguleika á fjórum þingmönnum úr Reykjavík þyrfti Samfylking að fá yfir 15% fylgi á landsvísu og til að fá sex þingmenn úr Reykjavík þyrfti flokkurinn að fá 21-22% á landsvísu.

Fyrir utan nöfn Kristrúnar Frostadóttur og Jóhanns Páls Jóhannssonar hefur ekki verið tilkynnt um hverjir eru í pottinum fyrir könnun meðal Samfylkingarfólks í Reykjavík. Reyndar hefur Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu – félags fanga, boðið sig fram.

2017 voru Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir og Páll Valur Björnsson í öðru sæti í sitthvoru kjördæminu. Og Eva Baldursdóttir og Einar Kárason í þriðja sætinu. Kannski býður þetta fólk sig fram aftur, það ætti að koma í ljós á næstu dögum. Einnig hvort Heiða Björg Hilmisdóttir, sem nýverið vann Helgu Völu í varaformannskjöri ætlar að fylgja þeim sigri eftir með því að sækjast öruggu þingsæti í Reykjavík (sem getur ekki verið annað en 1. sætið á öðrum listanum).

Helga Vala er særð eftir varaformannskjörið. Pólitík er grimm skepna og þar er aldrei gott að safna ósigrum. Ágúst Ólafur er einnig særður, eftir að hann fór í veikindaleyfi til sækja sér áfengismeðferð eftir að hafa áreitt konu kynferðislega. Það á eftir að koma í ljós hvort flokksmenn vilja fella þau tvö úr oddvitasætum (og þar með líklega úr pólitík, því það er ekki gott fyrir flokk að fella frambjóðendur en stilla þeim samt fram) en hvort uppstillingarnefndin vill gera það.

Miðað við yfirlýsingu Kristrúnar um að hún muni hætta í Kvikubanka ef hún fær viðunandi sæti á lista til að einbeita sér að kosningabaráttunni, getur það ekki átt við annað en 1. sæti í öðru kjördæminu og þá líklega sæti Ágústs Ólafs, sem hefur verið fulltrúi flokksins í fjárlaganefnd og helsti talsmaður þingflokksins í efnahagsmálum (þótt Oddný sé fyrrverandi fjármálaráðherra). Ef Heiða gefur ekki kost á sér, gæti svo farið að stuðningsfólk hennar (m.a. sem áberandi stjórnmálakonu í #metoo) muni styðja Kristrúnu til að fella Ágúst Ólaf.

Ef Heiða fer fram vandast málið fyrir flokksfólk. Það væri skrítið fyrir flokkinn ef nýendurkjörinn varaformaður fengi ekki gott sæti á lista (sem getur aðeins verið 1. sæti í öðru kjördæminu). Þá er ekki önnur leið til að tryggja Kristrúnu sæti en að fella Helgu Völu. Og þá væri Samfylkingin komin með lista sem lyktaði af uppgjöri við sitjandi þingmenn, sem rímar illa við þá sögu sem flokkurinn myndi helst vilja mæta með til næstu kosninga; að hann hefði hægt og bítandi byggt sig upp eftir niðurlæginguna 2013 og 2016.

En á næstu dögum mun skýrast hvaða fólk hefur kastað nafni sínu inn í þetta val. Þessi frétt um Jóhann Pál og Kristrúnu er upphaf einskonar kosningabaráttu; þau eða einhver þeim tengdur hefur talið það sterkt að leka nöfnum þeirra samtímis. Svona barátta leiðust oft út í flókin bandalög þar sem verslað er með atkvæði stuðningsfólks (ef þú styður mig í þetta sæti þá mun ég styðja þig í hitt sætið o.s.frv.). Í slíkum leik vinnur fólkið sem er best tengt innan flokksins, ekki endilega það sem hefur mestan kjörþokkann. Kristrún og Jóhann Páll eru bæði nýgengin í Samfylkinguna og það má vel vera að þeim reynist erfitt að taka þátt í leik hinna innvígðu.

Og svo er formið á þessu vali sérstætt. Fyrst er gerð könnun meðal félaga og svo velur uppstillinganefnd listann. En reynslan hefur sýnt að upplýsinganefnd er nánast ómögulegt annað en að fara eftir vali flokksfólk, því annar má reikna með að þau sem flokksfólk valdi en nefndin færir niður listann muni gera uppsteyt. Og stuðningsfólks þess upplifa flokkinn undir hæl þröngrar klíku sem fer gegn vilja flokksfélaga.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: